Bjarki á ferð og flugi
Það má víst ekki gleyma að minnast á börnin. Önnu Sólrúnu hefur gengið alveg rosalega vel að venjast nýja leikskólanum sínum. Hún er að vísu feimin þegar hún mætir á morgnana, en þegar feimnin rennur af henni þá leikur hún við hvurn sinn fingur og hvern þann krakka sem vill leika með henni. Hún er reyndar svolítið hýper (þannig tjáir hún stress, líkt og móðirin) en kennararnir hafa verið alveg gapandi yfir því hvað hún bara dembir sér í krakkahópinn er dugleg að tjá sig um það sem er í gangi. Það hjálpar henni að hún er með hávöxnustu krökkunum í bekknum.
Nú held ég samt að batteríin og “honnímúnið” sé að klárast, því að í dag kom hún aaalveg örmagna heim en ekki hoppandi/skoppandi/ískrandi eins og venjulega. Það var kannski ekki von því að Finnur fór með hana eldsnemma í skólann því að hann þurfti að mæta í nýju íbúðina til að taka á móti ísskápnum í morgun – en samt. Þetta er búið að vera mikið álag á hana, og ekki hjálpar til að nú erum við að fara að flytja! Við sjáum hvað setur, kannski róast hún í næstu viku…
Af Bjarka er það að frétta að hann er allur að færast í aukana. Hann lærði að velta sér yfir á magann og kanna umhverfið með því að snúa sér í hringi á maganum á Íslandi. Núna hefur hann verið að uppgötva á sér fæturnar og er farinn að spyrna í gólfið, og það hefur meiri að segja sést til hans þar sem hann fer upp á fjóra fætur – svona til að prófa! Hann er líka farinn að ferðast nokkuð, og veltir sér upp að borðinu, eða hillunni eða körfunni, eftir því hvernig liggur á honum.
Hann er líka mikið fyrir fínhreyfingarnar og er að ná ágætum tökum á því að taka hluti upp með því að grípa þá með þumalfingri og vísifingri eingöngu. Við erum farin að gefa honum hrísgrjón og pasta til að leika sér með þegar við borðum kvöldmat og það ratar merkilega mikið upp í munn og ofan í maga! Honum finnst gaman að búa til hávaða og lemur taktfast í dót ef svo liggur á honum og hann brosir alltaf breitt þegar stóra systir kemur til að leika við hann. 🙂
Annars verður eitthvað lítið um myndir á næstunni því að ég seldi myndavélina mína á Íslandi og er ekki ennþá búin að gera upp við mig hvort ég ætti að skella mér á 450D eða 40D næst. Reyndar er ég með smá móral að fara að kaupa mér nýja myndavél rétt þegar við erum nýbúin að leigja og erum að standa í miklum útgjöldum tengdum því… eeeeen ég er ekki viss um að ég fúnkeri án myndavélar!