Andvaka
Það er formlega mið nótt. Klukkan næstum orðin þrjú eftir miðnætti á aðfararnótt mánudags og ég ennþá glaðvakandi. Ég veit ekki alveg hvað er að angra svefnvöðvann minn… Kannski bara það að þetta er í fyrsta sinn sem ég set Bjarka aftur í rúmið sitt eftir eitt-eftir-miðnætti sopann sinn, en ekki í “milluna” hjá okkur. Hvernig á maður að geta sofið þegar það eru engir litlir útlimir að rekast í mann?!?
Svo er ég líka að semja sáluhjálpar-tölvupóst í huganum til einnar vinkonu minnar sem virðist vera komin á bólakaf í “þriggja-ára-sambands-krísu” án þess að gera sér alveg grein fyrir því. Inn á milli snilldarmálsgreina (oh! ég er svo sniðug í mínum eigin hugarheimi!) þá velti ég fyrir mér hvernig það væri að fá svona óumbeðinn póst framan í sig og hvort að það hefði nokkuð hjálpað þegar við Finnur dönsuðum okkar “þriggja-ára-sambands-krísu-dans” á sínum tíma. Ætli pósturinn sá verði nokkurn tímann skrifaður…
Vinnumál eru líka að dansa um í kollinum á mér. Mikið sem mig langar til að gera og koma í verk, en þegar ég loksins sest niður við tölvuna á daginn, verður mér yfirleitt alveg ferlega lítið úr verki. Þetta er farið að fara í taugarnar á mér. Það fer líka í taugarnar á mér að líkaminn er í slæmu standi eftir langt ár, og vélritunarþolið í lágmarki. Er að bíða eftir að 11. júlí renni upp og að ég fái ávísun á sjúkraþjálfun (lesist: háls- og baknudd).
Annars lítið að frétta, nema að það slæðist hægt og rólega upp úr kössum og upp í hillur og á borð. Samt drasl út um allt. Jú, Anna greindist með eyrnabólgu í dag eftir vikulangt kvef og við fengum lyfseðil. Þar sem hún er orðin það stór að hún gæti hrist hana af sér á 1-2 dögum þá á ég víst að bíða með að leysa lyfseðilinn út, og nota bara verkjalyf á meðan.
Finnur er búinn að vera veikur meira og minna frá miðvikudegi, með hita, þreytu og beinverki. Hann asnaðist í vinnuna á föstudeginum og fékk að súpa af því seiðið á laugardeginum. Bjarki mætti aftur á leikskólann á fimmtudaginn og mér sýnist sem að kvefið sé í rénun. Mikið væri nú týpískt að ég yrði veik akkúrat þegar ný vinnuvika er að byrja…! 😉
Annars get ég í lokin glatt lesendur með því að ég er búin að panta mér nýja myndavél, sem ætti að berast í dag eða á morgun. Fyrir valinu varð sú þyngri, 40D, og nú er að sjá hvort að ég geti höndlað hana skammlaust. Ef ekki þá held ég að ég verði að skipta henni út fyrir litla bróður (450D). Við erum búin að vera að nota gömlu S45 vélina, en hún vill ekki tala við Vista stýrikerfið og því við ekki búin að flytja af henni myndirnar. Já, við erum bölvaðir letingjar!! 🙂