Út að leika!
Dagurinn var rólegheitadagur, aldrei þessu vant. Við mættum í kaffi til Arnars móðurbróður og fjölskyldu um þrjúleytið og það tók þrjár sekúndur fyrir Önnu Sólrúnu og Eyþór (næstum 7 ára) að fara að leika sér saman. Eftir að Bjarki fór að lúlla þá settumst við niður við drekkhlaðið kaffiborð og stóðum varla upp í tvo tíma. Reyndar skutluðum við stóru krökkunum út að leika (þvílík gargandi snilld!) og fengum því að spjalla í ró og næði.
Við snérum svo aftur í Byggðarendann fyrir kvöldmat því að allri systkinasúpunni var boðið í svínasteik með pöru í tilefni af afmæli Badda (og komu okkar! :). Eftir matinn var Anna Sólrún svo send út með Margréti og Hilmi og kom heim vel moldug (eins og reyndar fyrr í dag). Við erum ekkert smá heppin að hafa svona rétt-eldri börn í fjölskyldunni!
Það virðist ætla að ganga betur fyrir Önnu Sólrúnu að sofna í kvöld (þrátt fyrir allt súkkulaðið og djúsið). Sem stendur er hún amk ekki byrjuð á “Ég vil ekki fara að sofa” söngnum, en það var víst tengt því að hún hélt að það væru að koma þrumur og eldingar eftir að einhver skaut upp flugeldum hérna í nágrenninu í gær. Hmmm…