Styttist í brottför
Bjarki fór loksins á leikskólann á fimmtudaginn, og svo aftur á föstudaginn. Anna Sólrún heimsótti nýja leikskólann á miðvikudaginn og föstudaginn og henni virtist lítast ágætlega á hann. Það hjálpar líka að einn kennarinn hennar úr gamla skólanum er nýbúin að skipta yfir á nýja skólann svo Anna á þar hauk í horni (eða “lauk í hori” eins og veitingastaðurinn “Haukur í horni” var endurskírður á skilti sem hékk utan á Úlfarsfelli í Vesturbænum í marga mánuði, ef ekki ár í minni æsku…)
Í tilefni af bættri heilsu þá hefur Bjarki núna tekið upp á að velta sér af baki á maga og aftur til baka! Reyndar er ein höndin aðeins að flækjast fyrir honum, en hann finnur væntanlega út úr því með tíð og tíma. Þar með er friðurinn líklega úti og nú má ekki skilja hann eftir á sófanum o.s.frv.
Svo er matarlystin að aukast hjá honum aftur, en við ákváðum að byrja á byrjunarreit með föstu fæðuna og það virðist hjálpa með að halda matnum niðri (minni skammtar og einfaldari matur). Hann er þó ennþá með hor í nefi og tekur hóstaköst fljótlega eftir að hann sofnar og vaknar, en okkur heyrist sem að hann nái að hreinsa lungun svo það er hið ágætasta mál.
Lítið annað að frétta en að það gengur lítið að undirbúa fyrirlesturinn en mér tekst vonandi að klambra einhverju saman fyrir miðvikudaginn. Ég hef nú einu sinni bæði mánudag og þriðjudag!! Á fimmtudaginn verður svo pakkað og gamli leikskólinn kvaddur og á föstudaginn leggjum við í langferð. Það verður seint sagt að ég hlakki til ferðalagsins, en það verður gaman að koma heim í heiðardalinn og knúsa fólk á kaliforníska vísu… 🙂