Sitt lítið af hverju
Það tókst að sofa til tæplega hádegis í dag þó svo að Bjarki reyndar héldi uppteknum hætti og vaknaði á þriggja tíma fresti í alla nótt. Þegar okkur tókst loksins að koma okkur út úr húsi þá lá leiðin til Hrefnu (lang)ömmu í kaffi. Síðan skutlaði ég Finni og Bjarka til Hollu, Óla og Ágústu Maríu og fór síðan með Önnu Sólrúnu í Laugardalslaugina. Sú stutta hefur nefnilega verið heldur hátt stillt undanfarna daga (á andlegu og líkamlegu spani) og meiningin var að láta hana hreyfa sig svolítið í þeirri von að róa hana niður.
Eftir stutt stopp til að ná í þá feðga þá héldum við til Huldu móðursystur og fjölskyldu í ljúffengan kvöldverð í þremur pörtum. Á milli forréttarins og aðalréttarins fékk Anna Sólrún að sannri íslenskri hefð að fara með Ásdísi Sól og Óðni úr augsýn fjölskyldunnar til að hoppa á trampólíni í Öskjuhlíðarskólanum.
Við komum heim í Byggðarendann um seint og síðir og núna erum við að berjast við að koma Önnu Sólrúnu í ró, en það hefur gengið alveg bölvanlega enda hún örmagna og óvön sólar-ljósmagninu langt fram eftir kvöldi…