Ljúfur dagur
Við fengum góða gesti í hádeginu því þá komu Jói og Kata hingað í Byggðarendann, færandi hendi með ofsagott bakkelsi, enda barnslaus í Borginni. Það var rosalega gaman að sjá þau og spjalla, og fyndið að hugsa til þess að þó svo að það væru örugglega einhver ár síðan að við hefðum í raun hist “in real life” þá hafa blogg og önnur netsamskipti orðið til þess að manni finnst maður bara hafa hitt þau síðast í gær!
Eftir langan síðdegislúr hjá Bjarka þá skrolluðum við okkur til Huldu móðursystur sem hafði boðið okkur og pabba og Anthony í kvöldmat. Það þáðum við með þökkum og uppskárum góðan félagsskap fyrir bæði ungna sem aldna, svo og afskaplega ljúffengan mat. Það eina sem skyggði á gleðina var að Bjarki virðist vera að fá svæsið kvef, það rann amk nokkuð stanslaust horið í kvöld, og hann hóstaði miklu upp úr sér. Nú er bara að vona að saltvatns-nefskolið virki eins vel og áður og að hann hristi þetta fljótt af sér.
Svo áður en ég gleymi þá ætla ég að bísnast aðeins yfir barnamatnum á Íslandi. Ég skal nú ekki segja með ávaxtamaukið en það kom mér á óvart með grænmetismaukið að sumar tegundirnar eru stútfullar af óþarfa eins og kartöflumjöli og olíum. Svo kom það mér líka á óvart að það er þurrmjólk í sumu barnagrautsmjölinu svo ekki sé minnst á alls konar auka-hitt og þetta (þó svo að sumt af því séu reyndar vítamín). Þannig held ég að eitt hafragrautsmjölið sé bara 73% haframjöl og restin er eitthvað annað. Á móti kemur að Finnur fann lífrænt hafragrautsmjöl sem er bara haframjöl og B1 vítamín. Er þar kominn öfginn í hina áttina!!! Og já, svona í lokin, þá held ég að krukkumaturinn sé tvisvar sinnum dýrari hérna en í USA, en það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart…