Hvalfjarðarferð
Adda og Halli fengu þá snilldarhugmynd að bregða sér í sveitina í Hvalfirði í dag, nánar tiltekið á sveitabýlið Bjarteyjarsand. Við fengum að fylgja með, enda bráðnauðsynlegt að bregða sér út fyrir borgarmörkin í hverri Íslandsferð til að “hlaða batteríin” í “náttúrunni”. Við vorum alveg ótrúlega heppin með veður, þvílíka rjómablíðu höfum við sjaldan upplifað og það í maí!
Krakkanir hittu fullt af dýrum og Anna hélt á hvolpi, lambi og kettling. Þess fyrir utan fékk hún að gefa hestum og kanínum og svo galaði hún á hana og hænur. Í lokin skelltum við okkur svo niður á strönd áður en við gerðum stutt kaffistopp í sumarbústað foreldra Halla sem er þarna rétt hjá. Síðan var rúllað í bæinn þar sem við fórum öll í mat til Hildar og Óla og átum á okkur gat! Frábær dagur í alla staði!