Hjá okkur er alltaf helgi!
Nú er helgi framunda, sem er svolítið skrítið því að allir dagar eru helgar-dagar um þessar mundir! Vikan leið annars í ágætum rólegheitum, með sundferð á dag (til að Anna nái að sprikla svolítið) og svo kvöldmat á ýmsum stöðum. Í góðviðrinu í gær fór ég svo líka í göngutúr um Elliðaárdal með Önnu og Bjarka svo að Finnur næði andanum, enda hefur hann tekið að sér morgunvaktina (frá níu til ca. hádegis) á meðan ég jafna mig eftir nóttina.
Pabbi Gunni og Anthony yngsti bróðir minn mættu í gær frá Englandi og verða fram á sunnudag. Í dag fórum við öll með pabba Gunna og Anthony í sund og aldrei þessu vant fékk Bjarki að fljóta með, og var það hans fysta sundferð. Bjarki kunni ágætlega við sig sérstaklega eftir að hann fattaði að það er hægt að slá í vatnið, en honum fannst þetta samt svolítið skrítið. Nú er bara að vona að honum hafi ekki orðið meint af volkinu í innilauginni í Árbænum.
Annars berast af því fréttir að það sé búin að vera svakaleg hitabylgja úti þar sem við búum, og ef ég les veðurvefsíðuna rétt þá náði hún hámarki í gær með heilum 38 stigum. Jedúddamía!! Hitinn á sem betur fer að sigla undir 30 stigin um helgina, sem er hið besta mál því það eru fæstir með loftkælingu þar sem við búum því að það verður sjaldan sem aldrei svona heitt. En mikið er ég fegin að hafa misst af ósköpunum…