“Deit-næt”
Við Finnur skildum gríslingana eftir í öruggum höndum ömmu og afa “í Mosó” og skelltum okkur í bíó í kvöld! Það var svo skrítið að koma heim aftur því að bæði börnin voru sofnuð. 🙂 En sum sé, mig hafði lengi langað til að kíkja á Iron Man og þar sem við vorum hérna í Byggðarendanum í kvöldmat (aldrei þessu vant!) þá drifum við okkur bara í átta-bíó í Mjóddinni. Ég veit ekki hvað það eru mörg ár síðan ég kom þangað síðast, en þá var amk ekki búið að færa miðasöluna innar í húsið og ekki man ég heldur eftir einhverjum VIP sal!
Hvað um það, myndin var hið ágætasta bull með fullt af sprengum og látum og tíminn leið hratt. Síðasta myndin sem við hjónakornin sáum saman í bíó var Ratatouille en þá passaði Anna eldri Önnu yngri og Bjarki var á spítalanum. Þar á undan held ég að við höfum farið á Casino Royale Bond myndina, og þar á undan á King Kong. Hmmm… af þessari upptalningu lítur út fyrir að við hjónakornin sjáum eina mynd í bíó á ári, svo þar með er útséð með fleiri bíómyndaferðir á þessu ári!!!
Annars var þetta rólegur dagur. Ég er hálft í hvoru að fá smá kvef, svo ég var bara heima með kvefaðan Bjarka í dag. Finnur fór hins vegar með Önnu í nýju Salarlaugina og svo fóru þau tvö ásamt Steinunni og afa Eymundi í Vinnufatabúiðina, þar sem Eymundur fann sér gallabuxur í afmælisgjöf frá systkinunum. Það skal tekið fram að Eymundur verður 95 ára á morgun, og geri aðrir betur!!