Veikindabæli
Ekki hefur heilsulukkan verið á ferð með þeim Öddu, Halla og Hildi Sif í þessari ferð frekar en þeirri fyrri. Um síðustu helgi fékk Hildur Sif hita, en í byrjun vikunnar lýsti læknir hana ferðahæfa svo út var flogið. Þau mættu á aðfararnótt miðvikudags og restin af þeim degi leið í jet-lagged skýi. Um það kvöld hins vegar fékk Bjarki sinn fyrsta hita (39.3 stig) – líklega hans fyrsta leikskólapest – en daginn eftir, fimmtudag, var hann kominn niður í 38.2.
Þann fimmtudag virtist Hildur Sif líka vera að braggast svo við Adda fórum með hana og Bjarka í göngu/hjólatúr í um 26 stiga hitabylgju, en þegar við komum heim úr þeim túr þá fékk Adda næstum aðsvif, lagðist niður í sófa og rotaðist. Um kvöldið hafði Hildi Sif svo slegið niður og daginn eftir, á föstudegi, þá var hún með tæplega fjörtíu stiga hita (39.7) og var haldið heima við. Adda svaf líka í gegnum daginn – en Bjarki var bara kátur enda orðinn hitalaus þó svo að það líti út fyrir að hann sé að fá kvef.
Í dag er laugardagur og Hildur Sif er talsvert brattari, en á móti kemur að ég og Finnur erum bæði að slappast. Adda virðist vera aðeins hressari en sem stendur þá eru það bara Halli og Anna sem geta státað af fullri heilsu. Sem betur fer vorum við svo sem ekkert búin að plana neinar stórkostlegar skoðunarferðir um nágrennið, og þetta veikindabasl allt þýðir að við erum heldur betur að rækta félagslega partinn. Eins gott að þau komu til að “hitta okkur” en ekki fara í massívar skoðunarferðir!!! 🙂
Það er reyndar ágætt til þess að hugsa að við séum að fá eina staka Íslandspest núna en ekki sömu pest í bland við tuttugu aðrar Íslandspestir sem við eigum örugglega eftir að hitta þegar við lendum eftir tæpan mánuð. Annað skemmtilegt er að Önnu og Hildi Sif kemur svona glimrandi saman og það hefur hjálpað heilmikið.
Eitt af því fáa sem okkur tókst að gera í dag var að skrölta með stelpurnar út í hjólabúð og kaupa enn eitt hjólið handa Önnu Sólrúnu. Hún er svo lappalöng að hún er vaxin upp úr 16 tommu hjólinu og því keyptum við handa henni 20 tommu hjól. Það er í lengri kantinum (eða hendurnar á henni í styttri kantinum?), en það þýðir bara að vonandi á hún eftir að geta notað það í rúmlega ár og kannski tvö!
Sem stendur lítur út fyrir að við “chillum” bara áfram á morgun, ætli það verði ekki í mesta lagi farið í “Fry’s” og stelpunum hleypt út í garð að leika á meðan við fullorðna fólkið skiptumst á að sofa og ræskja okkur!!! 🙂