Sitt af hverju
Nýjustu tölur og heilsumál
Bjarki fékk RS-vírus mótefna-sprautu í síðustu viku, og mældist þá 6.88 kg og 67.5 cm. Núna á mánudaginn fór hann svo til lungalæknisins og mældist þá ca. 6.85 kg og 68.5 cm. Lungnalæknirinn var afskaplega ánægður með hann, sýndist sem að sá stutti væri að vaxa ágætlega (sérstaklega á lengdina) og að lungum hljómuðu vel. Ég sagði honum frá grunsemdum mínum að Bjarki væri farinn að fá meiri brjóstsviða (sefur illa, reygir sig aftur á bak og er þá óhamingjusamur) og læknirinn sagði að við ættum að prófa að auka skammtinn af sýrustillandi lyfinu sem hann fær.
Við prófuðum það og…
Svefn-og matarmál
… Bjarki fór strax að sofa betur. Undanfarnar tvær vikur eða svo (finnst það hafa verið heil eilífð reyndar), þá hefur Bjarki sofið ferlega illa – vaknað volandi á 1-3 tíma fresti og viljað drekka, ekkert snuð takk! Um leið og við jukum við lyfjaskammtinn svaf hann sinn fyrsta fimm tíma dúr í einhverjar vikur. Nú er mér farið að gruna að vélindabakflæði hafi líka verið að plaga Önnu Sólrúnu á sínum tíma, en hún einmitt vaknaði á tveggja tíma fresti mánuðum saman.
Svona þegar ég hugsa um það þá hefur Bjarki verið frekar matvandur upp á síðkastið, en það er einmitt líka merki um vélindabakflæði/brjóstsviða. Þá læra börn fljótt að borða oft og lítið til að minnka verkinn. Nú er hann strax farinn að borða aðeins betur og er það vel, enda langur og mjór greyið… eins og honum kippir reyndar kinið til, en það er önnur saga.
Í sófanum í nýju náttfötunum sínum.
Leikskóli
Á mánudaginn byrjaði leikskólavist Bjarka. Af sönnum tepruskap þá skyldi ég hann eftir í klst á mánudaginn, tvær klst í gær og svo þrjár í dag. Hann virðist kunna rosalega vel við sig, finnst bekkjarfélagar sínir svakalega spennandi og hefur náð að sofna tvo daga í röð. Á meðan hef ég setið inni á kaffistofu leikskólans, sem er að sjálfsögðu full af mat (þar er hádegismatur, samlokur, ávextir, allir mögulegir drykkir, morgunkorn, salöt, lífræn mjólk í öllum útgáfum, súkkulaði, kex, o.s.frv. og allt ókeypis að sjálfsögðu) og unnið á fartölvuna mína. Var ég búin að minnast á að krakkarnir fá allan mat í skólanum? Þvílíkur lúxus!!
Það er reyndar eitt svoldið skondið við leikskólann. Eins og allir leikskólar, þá aðhyllist hann ákveðna “stefnu”, og í ungbarnabekkjunum þá er partur af “stefnunni” að láta börnin þroskast líkamlega hvað náttúrulegast og ekki setja þau í stöðu sem þau koma sér ekki í sjálf. Þannig eru þau ekki hvött til að sitja, eða sett í sitjandi stöðu, heldur er beðið þar til þau átta sig á því hvernig á að setjast upp sjálf. Þar til að þau geta svo klifrað upp í lága matarstólinn alveg sjálf, þá halda kennararnir á þeim til að mata börnin og gefa þeim pela.
Það er líka partur af stefnunni að krakkarnir læri að sofna sjálf, svo þau eru sett vakandi í rimlarúmið sitt og ef þau verða of ergileg, þá eru þau tekin upp og róuð og svo sett niður aftur. Þessa vikuna þá eru þeir bara þrír strákarnir og því ekki mikil læti og því hefur víst gengið ágætlega að svæfa Bjarka. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar hasar-stigið eykst!
Helgin sem leið
Það má víst ekki gleyma að minnast á helgina sem leið! Anna fór upp um sundstig á laugardeginum – nú þarf hún ekki lengur að nota froskalappir í sundskólanum. Svo fengum við Berglindi, Styrmi, Daníel og Ísold í heimsókna á laugardeginum, og rifjuðum upp með þeim forna frægð og ljúfa lífið í Kaliforníu. Finnur grillaði svínarif á meðan krakkarnir léku sér úti í garðinum.
Anna Sólrún, Daníel Andri og Ísold Lilja.
Á sunnudeginum fór Anna í pössun til vinkonu sinnar á meðan við hin fórum í fataleiðangur í Great Mall. Þar sem leið okkar liggur til Íslands, og Finnur hefur ekki keypt sér föt í um þrjú ár, þá römbuðum við beint inn í Banana Republic át-lettið og keyptum á hann nokkra alklæðnaði. Það er alveg ótrúlega auðveld að kaupa á hann föt ef maður rambar á réttu búðina! Eftir verslunarferðina buðum við pössurum Önnu í mat og í það skiptið var boðið upp á kjúkling og pasta í rauðri sósu.
Helgin næstkomandi
Um helgina stefnum við á að prufukeyra Príus bíl með það fyrir augum að festa klónum í einn slíkan – og jafnvel flytja heim á skerið þegar að því kemur. Þá þarf líka að kaupa búster-sæti fyrir Önnu því í næstu viku eigum við von á góðum gestum sem ætla að fá núverandi bílstólinn hennar lánaðan.