Ein í kotinu
Nú ættu ferðalangarnir að vera um það bil að lenda í Keflavík, en þau lögðu af stað til Íslands núna í morgun. Við vonum að ferðin hafi gengið vel hjá þeim og þökkum samvistina!! 🙂 Sem betur fer rættist aðeins úr síðustu dögunum hjá þeim, og mér skilst að þau hafi náð að klára helstu innkaup áður en yfir lauk.
Það var því tómlegt um að litast hjá okkur í dag og heldur hljóðlátara en undanfarna daga. Þar sem Anna Sólrún er nú komin í hálsbólgu-partinn af pestinni þá ákvað ég að nota tækifærið og fara með börnin til læknis, helst til að útiloka að hér væri streptókokkahálsbólga á ferð. Það var tekið strok úr hálsinum á Önnu en engir kokkar ræktuðust. Okkur var sagt að koma með hana aftur ef hitinn verður ekki farinn á mánudaginn. Núna í kvöld var hann 38.6 svo hann þarf að taka góða dýfu á morgun svo hún megi fara á leikskólann á mánudaginn.
Svo er Bjarki núna kominn með pestina ógurlegu. Hann fékk hita aðfararnótt föstudagsins og þetta er dagur tvö yfir 39 stigum. Hann á frekar bágt greyið, enda mikið kvef sem fylgir þessu hjá honum og stundum erfitt að anda. Ef hann fylgir sömu sóttarsögu og Anna Sólrún þá er ólíklegt að hann fari á leikskólann alla næstu viku sem flækir svoldið málið því við ætluðum að segja henni “tíðindin” (að hún sé að byrja í nýjum leikskóla) og fara með hana í heimsóknir á meðan Bjarki væri í skólanum. Það plan þarf víst eitthvað að endurskoða núna.
Undirniðri bullar svo hópfyrirlestur sem ég á að halda þann 7. maí og á að sannfæra nýja proffann minn um að ég sé svo gott sem tilbúin að verja. Ég hef hins vegar ekki unnið nema í viku að þessum fyrirlestri frá því í mars og nú lítur út fyrir að næsta vika verði ónýt líka. Obbosí!