Þyngd
[Þessi bloggfærsla dettur undir flokkunina “WTMI” eða “Way Too Much Information”. :)]
Fyrsta hitabylgja vorsins skall á í dag með um þrjátíu stiga hita. Núna er komið miðnætti og um átján stiga hiti úti, og allt of heitt inni í svefnherbergi til að sofna. Í staðinn er heilinn að blogga og mér datt í hug að skrifa sullið bara niður í þeirri von að svo geti ég sofnað.
Það sem er að veltast um í hausnum á mér eru þyngdartölur. Það er víst bannað að segja hvað maður er þungur, en mér finnst það leiðinlegt bann og því ætla ég bara að láta flakka. Núna áðan steig ég á vigtina og hún sýndi 98 kg. Í morgun var hún 97 kg, og fyrir viku var hún að flakka um 95 kg (Ó, Gúgul kaffitería, hví ertu svona hlaðin af mat?!) Þegar við fluttum til Bandaríkjanna var ég 68 kg svo að nú eru liðin þrjátíu þúsund grömm síðan við fluttumst út.
Á svona tímamótum finnst heilanum á mér við hæfi að líta til baka um farinn veg og velta sér upp úr kílóunum í þeirri von að ná yfirsýn yfir ástandið og sjá hvort eitthvað megi gera til að koma í veg fyrir frekari blómgun.
Fyrsta þyngdartalan sem ég man eftir er 63 kg. Þá var ég tiltölulega nýbyrjuð í Hagaskóla og tvær töluvert smærri vinkonur mínar voru að tala um þyngd í strætó. Þær göptu þegar ég sagði þeim hvað ég væri þung – þær ætluðu ekki að trúa því að ég væri yfir sextíu kíló!!! Það sem vantaði inn í kollinn á okkur öllum var að ég var full-kynþroska 13 ára gömul og búin að ná fullri hæð, 173 cm (ókei, 172.5 cm ef maður vill vera smámunasamur) og höfðinu hærri en stöllur mínar. Vinkonur mínar voru líka lausar við ættarstoltið: vel bústinn rass og læri, sem ég mun hafa erft frá föður-ömmu minni.
[Hér kallaði Bjarki á mig og ég druslaðist í rúmið og sofnaði fyrir rest um tvöleytið. Restin er skrifuð kvöldið eftir.]
Um tíu árum seinna útskrifaðist ég úr rafmagnsverkfræðinni í háskólanum og var þá búin að éta á mig 12 kíló í viðbót. Þá tók við eina árið þar sem ég hef farið niður í þyngd, enda starfið á Símanum hvorki kröfuhart né tímafrekt og við Finnur fórum í gymmið þrisvar í viku. Ég prófaði líka á þeim tíma að fara varlega í kolvetnin, sem hjálpaði óneitanlega. Ég átti það nefnilega til að fá mér ábót af kartöflum eða hrísgrjónum um 15-20 mín eftir að málsverði lauk, en mér tókst að forðast bæði í dágóðan tíma.
Það var því 70 kg Hrefna sem giftist Finni í mars árið 2000 og 68 kg Hrefna sem fluttist til Bandaríkjanna, eins og áður kom fram. Hægt og rólega söfnuðust fyrri kíló aftur til baka, fyrir utan stutt tímabil þar sem ég fór út að hlaupa og stundaði líkamsrækt. Mér er það minnisstætt að þar sem ég var búin að missa hvað flest kíló, þá fór ég að fá svona “þú ert nú bara að detta í sundur” komment og ég fékk það sterklega á tilfinninguna að ótilgreindu fólki fannst ég vera helst til horuð.
Þegar ég varð ólétt af Önnu Sólrúnu vorið 2003, á var ég aftur komin upp í 75 kg alveg eins og þegar ég útskrifaðist úr HÍ. Ég þyngdist um 18 kg á meðgöngunni, og þegar líkaminn var búinn að skreppa saman eftir fæðinguna, þá endaði ég í um 82 kg. Ég hafði sem sagt bætt á mig um 7 kg á meðgöngunni og í þetta sinn enduðu fitukeppir á mittinu, en ekki bara á rassi og lærum.
Eftir fæðingu Önnu Sólrúnar tók ég eftir því að þyngin hélst nokkuð stöðug, fyrir utan vinnutarnir fyrir ráðstefnur og fyrirlestra. Ég sagði stundum í gríni að “þetta var 1 kg fyrirlestur” eða “2ja kg ráðstefna”. Í byrjun ársins 2007 hafði ég haldið nógu marga fyrirlestra og farið á nógu margar ráðstefnur til að vera komin upp í 90 kg og varð þá ólétt aftur.
Í þetta sinn var óléttan heldur endasleppt, og það vantaði síðustu átmánuðina þrjá. Þegar líkaminn var að mestu búinn að jafna sig eftir fæðinguna þá var ég um 92 kg. Spítala-sumarið mikla leið án margra kílóa, en eftir að Bjarki kom heim, þá eyddi ég um það bil fjórum mánuðum liggjandi á bakinu uppi í sófa með hann ofan á mér. Það, og greinin sem ég skilaði af mér í nóv 2007 og svo aftur vorið 2008, og langvarandi skólastress hefur orðið til þess að núna er ég farin að nálgast hundrað kílóin ískyggilega mikið.
Og hvað skal þá gera?!?
Ja, ég veit það að ég hef enga aukaorku til að fara í “megrun”. Þannig að ég verð bara að vona að ég geti nokkurn vegin haldið mér í stöðugri þyngd þar til að Bjarki fer að sofa almennilega á næturna, og kannski næ því að útskrifast og þá get ég kannski hliðrað til orku í að hugsa um líkamann en ekki bara hina hundrað-þúsund-hlutina sem eru í gangi á hverjum tíma.
Þessa dagana brýt ég líka mikið heilann um það hvort ég eigi að fara með Bjarka út að ganga á morgnana fyrir morgunlúrinn hans (líkamsrækt fyrir mig!) eða hvort ég eigi bara að reyna að sofna eins og kartafla með honum (svefn fyrir mig!). Ég veit það af fenginni reynslu að ef ég næ ekki að sofna, eða hann lúrir bara í 20 mín, þá liggur leiðin beint í dökka súkkulaðið í veikri von að fá inn orku til að fúnkera – svo ég veit ekki hvernig göngutúr myndi virka á mig.
Sem leiðir mig að tveimur áhugaverðum hlutum sem ég hef heyrt út undan mér á undanförnum vikum. Í fyrsta lagi þá hafa rannsóknir sýnt að þeir sem sofa lítið eru oft of þungir. Í öðru lagi þá eru líka búið að sýna fram á að manneskjur hafa takmarkaðan viljastyrk/aga, sem ýtir undir að maður á ekki að fara í megrun um leið og maður stendur í öðrum stórræðum!
Þangað til lífið tekur stórkostlegum breytingum (heillar nætur svefn!!) held ég því að ég verði að sætta mig við HAES-hugmyndafræðina. HAES stendur fyrir “health at every size” og er hugmyndafræði fitu-bloggaranna sem vilja meina að fólk sé feitt alveg eins og það sé hávaxið – og að krafa samfélagsins um að allir séu tágrannir sé ekki sanngjörn né raunhæf. Hins vegar sé það skynsamlegt að reyna að halda heilsu með því að hreyfa sig, en að markmiðið eigi ekki að vera þyngdartap, heldur aukið úthald og svo framvegis.
Þetta hefur mér fundist merkilegt sjónarhorn, enda ég verið sannfærð um það síðan í strætónum forðum daga að ég sé gangandi fitukeppur. Þegar ég lít til baka yfir farinn veg, þá geri ég mér betur grein fyrir því að ég hef hreinlega verið grönn þarna í “den”. Fyndið hvað hausinn er vanstilltur eitthvað.
Ein afleiðing af þessum kílóum öllum saman er þó að fatakaup fara nú að flækjast enn meira. Fatakaup hafa ætið verið eitt það allra leiðinlegasta sem ég geri enda vonlaust að fá föt sem líta mannsæmandi út, þegar viðmiðið eru gangandi beinagrindur sem hafa engar “hæðir og hóla”. Nú fer hins vegar í alvörunni að verða vonlaust að fá föt, og þá buxur sérstaklega, því að ég svo gott sem komin upp úr venjulegum buxnastærðum, þó svo að efri-parturinn hangi sem betur fer inn á milli L og XL.
Ætli ég þurfi samt ekki að bíta á jaxlinn á næstunni, því að það vofir yfir Íslandsferð, og það er víst ekki hægt að fara þangað með eitt sundurgengið buxnapar! Best að draga djúpt andann… 🙂