Stressið búið í bili
Ég þakka kærlega fyrir góðar afmæliskveðjur!! 🙂 Afmælisdagurinn var á rólegri nótunum og afmælið fór að mestu fram í kyrrþey. Á sunnudaginn fór Anna í heimsókn til bekkjarvinkonu sinnar á meðan ég las og Finnur sá um Bjarka, og við borðuðum síðan kvöldmat með þeirri fjölskyldu. Síðustu tvö kvöld hafa síðan farið í að klambra saman glærum fyrir hópfyrirlestur.
Hélt hópfyrirlesturinn í hádeginu í dag og það gekk nokkuð áfallalaust. Talaði bara um fræðin á bak við það sem ég er að gera og það er erfitt að gera það spennandi fyrir hina í hópnum. Partur af því sem ég talaði um dag ætti samt að koma sér vel þegar kemur að því að, hóst, ræskja sig, hóst, hóst, verja, hóst, hóst. Það er búið að vera heldur stressandi að undirbúa þennan fyrirlestur því ekki mikið um vinnutíma og stutt síðan ég var andlega lömuð eftir flutningana.
Ég fékk Finn til að vera heima í morgun (enda ekki búin með glærurnar ennþá) og síðasta glæran var kláruð 10 mínútum áður en ég átti að mæta. Ég var samt nokkuð sátt með niðurstöðuna því þetta fékk mig til að hugsa um hluti og skipuleggja eilítið og var því ekki algjörlega gangslaust streð. Það hjálpaði síðan að þegar ég kom heim tókst mér að leggja mig með Bjarka í tvo tíma sem var gott fyrir geðheilsuna.
Eftir lúrinn fórum við í göngutúr enda ekkert gaman að vera inni við í góða veðrinu. Sá stutti hefur tekið mikilli sátt við hlaupakerruna og situr þar þeygjandi og hljóðalaust svo lengi sem maður er á hreyfingu og eitthvað nýtt að sjá. Mig grunar reyndar hálft í hvoru að augntennurnar séu farnar að hugsa sér til hreyfings og því gætu verið pirraðir dagar í uppsiglingu.
Svona í lokin vil ég svo óska Írisi, Óla og Emilíu hjartanlega til hamingju með lillu snúlluna sem fæddist í dag. Víííí! 🙂