Leikskólapláss
Enn einn sunnudagurinn að kvöldi komin – ótrúlegt alveg! Við gerðum reyndar ekki mikið af viti þessa helgina. Helst ber að nefna að ég borðaði hádegismat með nokkrum mömmum af leikskólanum í dag í tilefni af því að ein þeirra er komin á steypirinn. Það kom mér á óvart hvað ég hafði gott af félagsskapnum, sólinni og því að vera barnlaus í smá tíma. Finnur stóð sig eins og hetja á meðan og passaði gríslingana tvo.
Eftir lúr þá hjóluðum við mæðgur að sundlauginni á kampus og syntum þar í um 10 mínútur áður en við hrökkluðumst upp úr vegna kulda. Anna er orðin mjög dugleg að hjóla án hjálpardekkjanna og var dugleg að stoppa við bílagöturnar. Feðgarnir fóru hins vegar í búðina og Finnur eldaði kvöldmat.
Í öðrum fréttum er að Bjarki fékk inni á Gúgul dagvistinni á föstudaginn, og getur byrjað viku eftir að við skilum inn bunka af eyðublöðum sem ég næ vonandi að fylla út á morgun. Við ætlum nú reyndar bara að láta hann byrja hægt og rólega því markmiðið til að byrja með er helst að venja ónæmiskerfið við nýju umhverfi. Svo erum við líka að fara til Íslands í maí svo eftir það þarf að byrja aðlögun upp á nýtt.
Þess fyrir utan þá skilaði ég inn greininni minni núna á miðvikudaginn. Við samhöfundarnir löguðum hana svoldið til (þó svo að hún hafi verið samþykkt í upprunalegu formi) og nú er að sjá hvort að ritstjórarnir vilji fá ný ummæli um hana. Ég vona ekki… Á miðvikudaginn byrjaði hóstapest númer 3 hjá Bjarka, að sjálfsögðu í boði stóru systur sem hóstaði vikuna þar á undan. Hann hóstar ekki mikið á daginn, mest bara þegar hann leggst niður til að sofa.
Svona til að halda áfram afturábak í tíma, þá var frí á leikskólanum hennar Önnu á mánudag og þriðjudag. Á mánudeginum fórum við í heimsókn til vinafjölskyldu og borðuðum góðan mat og á þriðjudeginum keyrðum við yfir fjöllin og niður á strönd. Það var afskaplega gaman og Anna Sólrún skemmti sér konunglega.