Skunkalykt!
Sit hérna á skrifstofunni og það er komið fram yfir miðnætti (tæknilega kominn 29. febrúar). Ætlaði að fara í rúmið en varð bara að gera stutt bloggstopp til að tilkynna alþjóð að ég er alveg að farast úr skunkalykt! Glugginn hérna er búinn að vera galopinn í allan dag, og hvort þetta sé uppsöfnuð skunkalykt veit ég ekki, en sterk er hún. Úffabía bara !
Er annars að reyna að klambra saman fyrirlestri fyrir rannsóknar-hópinn í næstu viku. Á að tala á miðvikudaginn og planið var að tala um “þeóríuna” á bak við það sem ég hef verið að gera. Sem er svo sem allt gott og fínt fyrir utan að ég hef trassað það all svakalega að LESA mér til um þeóríuna á bak við það sem ég er að gera. Hef svo sem lesið eitthvað, en ekkert ferlega skipulega og helst til forðast bækur með mörgum tegurmerkjum í. Nú verður það ekki liðið lengur og ég er búin að vera að hraðlesa eina bók undanfarin kvöld í þeirri von að verða samtalshæf um bylgjudreifingu af ósléttum slembi-yfirborðum.
Það hjálpar ekki að einn vinnufélaginn (sem ætlar að verja í júní) hélt rosalega flottan fyrirlestur í síðustu viku og ég er því hálf miður mín með það litla sem ég er komin með á glærur. En ég hef ennþá smá tíma (nokkrar nætur) og vonandi næ ég aðeins að krafsa í bakkann. Það hjálpar að strumparnir okkar eru yfirleitt komnir í rúmið um átta leytið svo að kvöldin eru nothæf ef ég passa mig að ofkeyra mig ekki yfir daginn – og dreg skottið hingað upp á skrifstofu í staðinn fyrir að húka niðri í sófanum. Ó sófi, þér eruð svo mjúkur!! 🙂
Það skal líka minnast á að í dag er Bjarki 8 mánaða, en ætti að vera næstum 5 mánaða. Hann sat lengi vel í dag í rúminu umkringdur púðum og lék sér að dóti. Þetta er allt að koma hjá honum. 🙂