Flutt!!
Þetta er búinn að vera laaaaangur dagur. Við vorum búin að pakka um 90% af dótinu okkar þegar flutningamennirnir þrír mættu í morgun klukkan rúmlega níu á 24 feta (rúmlega 7 metra) flutningabíl. Við vorum með 60 kassa, og fullt af plastpokum með fötum og rúmáklæðum. Það tók rúmlega þrjá klukkutíma að bera allt draslið út og upp í bíl. Við tókum okkur smá pásu í hádeginu og borðuðum beyglur sem Finnur var svo sniðugur að fara og ná í fyrir okkur öll. 🙂
Um eitt leytið var mjólkurfrystikistunni loksins rúllað upp í bíl, og svo keyrðum við í alveg tvær mínútur eða svo að nýja húsinu. Það tók rúma tvo klukkutíma að afferma bílinn, og sem betur fer báru flutningamennirnir alla kassana og húsgögnin á “sinn stað”. Það kom sér vel því að við ætlum að nota “aukaherbergið” uppi sem “skrifstofu” og þangað fóru allar bækurnar og annað dót sem hefur verið að valda (mér) öndunarerfiðleikum á neðri hæðinni.
Bjarki litli stóð sig eins og hetja í dag og Anna skoppaði spennt um á leikskólanum. Ég var með Bjarka í “beibí-björninum” framan af degi þar sem hann lúrði ýmist eða horfði í kringum sig. Eftir hádegi fór hins vegar að bera á “treglífi” og þá fór að súrna skapið. Á endasprettinum ákvað Finnur að fara með Bjarka í bílnum og kaupa dónuts fyrir okkur. Síðasti kassinn fór inn í hús klukkan hálf fjögur og Finnur renndi í hlaðið skömmu seinna með sykur-í-kassa.
Við náðum aðeins að taka upp úr kössum áður en Anna Sólrún kom heim og kvöldmaturinn var kínverskur. Hún var kát að endurheimta dótið sitt, og raðaði inni í dúkkuhúsið sitt á meðan ég tók upp úr fleiri kössum. Nú þegar klukkan er að ganga ellefu (og Anna löngu sofnuð) þá er Önnu Sólrúnar herbergi svo til afpakkað og okkar herbergi er hálfnað, svo og eldhúsið. “Skrifstofan” er óhreyfð og það á aðeins eftir að fínpússa húsgagnastaðsetningu í stofunni.
Það auðveldar málið að nýja raðhúsið er alveg jafnstórt og gamla raðhúsið, bara speglað að innan og með einu aukaherbergi. Það þarf því ekki að spekúlera mikið með hvað fer hvert. Svo hjálpar að núna er “úti-geymslan” rétt við útidyrnar okkar en ekki tveimur íbúðum í burtu, svo við settum heilmikið dót þangað inn.
Því verður hins vegar ekki neitað að við hjónakornin eru heldur betur lúin eftir langan dag. Á morgun ætlum við að ná í leyfarnar úr gömlu íbúðinni og henda draslinu í bakgarðinum. Svo stendur til að létt-þrífa gömlu íbúðina, ég nenni ekki að leggja mikið í hana því þeir eru að fara að rífa allt gólfið upp og standa í heilmiklum framkvæmdum. Við höfum lyklana fram á fimmtudaginn, svo að það er nægur tími.
Hugsa sér… Fyrir rúmum sjö árum mættum við hingað út með þrjár ferðatöskur. Þær hafa aldeilis margfaldast síðan þá!! Það er líka nokkuð ljóst að héðan í frá flytjum við ekki án þess að ráða hjálparkokka!