Fleiri gestir
Það er komið sunnudagkvöld, en helgin er ekki alveg búin því að á morgun er “forsetadagur” og frí í vinnu og skóla. Vikan leið heldur tíðindalaus. Ég var reyndar óvenju dugleg að koma mér og Bjarka út í smá göngutúra og ég er ekki frá því að eitthvað hafi verið unnið eitt eða tvö kvöld í vikunni.
Helgin hefur hins vegar verið óvenju “bissí”. Í gærkvöldi komu Tim og Jane með Hönnuh, og við Jane fórum í örstutta verslunarferð í leit að buxum á meðan drengirnir elduðu kvöldmatinn. Augusto bættist í hópinn rétt fyrir mat, því hann er grasekkill þessa dagana. Verslunarferðin var algjörlega misheppnuð, en við reyndum þó. Ég er ekki frá því að ég sé orðin of stór á þverveginn í buxur í venjulegum búðum. Ekki gaman það, en kannski ekki skrítið miðað við inniveru undanfarinna mánaða, og ófáa klst með þann litla sofandi á bringunni.
Í morgun fórum við Anna svo í afmælisveislu til bekkjarbróður hans (jamm, í fimleikasal). Eftir síðdegislúrinn komu Sólveig og Arnar með Nikulás og Freyju í heimsókn. Krakkarnir skemmtu sér konunglega á leikvellinum undir vökulum mæðra-augum á meðan feðurnir léku sér með bor og leiser-hallamál og settu upp gluggatjöld í herbergjunum á efri hæðinni. Þeir sáu svo um eldamennskuna (pestó-pasta og pylsur að hætti Elsu og Þráins) á meðan kakkarnir léku sér inni.
Það verður víst að minnast á að Finnur vann Wii leikjatölvu í vinnunni á föstudaginn. Það var verið að hvetja starfsmenn til að endurvinna (“rísækla”) tæknidót og nöfn þeirra sem skiluðu inn fóru í pott. Á vikulega fyrirtækjafundinum í lok dags á föstudegi þá var nafnið hans Finns dregið úr potti og hann fór upp á svið fyrir framan salarfylli af fólki. Hann þurfti að svara nokkrum spurningum (m.a. “Af hverju átt þú skilið að vinna Wii?”) en svo var tölvan hans. Þetta er samt eiginlega hálfgerður bjarnargreiði, því tölvan er ekki mjög nothæf bara beint úr kassanum. Það þarf að kaupa fyrir hana leiki, og svo keypti Finnur auka stýri-prik og hleðslutæki í dag. Penge, penge, penge…
Bjarki steinsofandi í kerrunni sinni í íslenska flís-gallanum.
Anna í glugga. Hún er með sár undir nefinu eftir árekstur á leikskólanum…
Freyja, Anna og Nikulás í bílaleik.