Dansi, dansi…
Þetta var upp og ofan dagur. Okkur tókst að klambra saman barnarúminu hans Bjarka, og það smellpassar þar sem ég vildi hafa það. Ekki að drengurinn hafi sofið í rimlarúminu fyrir utan kannski tæpan klukkutíma síðan hann kom heim – hann sofnaði þar einn daginn á meðan við vorum að ganga frá þvottahrúgunni á okkar rúmi. En rúmið er ágætis teppageymsla, og ég er með mikilmennskudrauma um að kannski takist mér að venja hann á síðdegislúr þar á meðan ég vinn á skrifstofunni. Hva, maður má alltaf láta sig dreyma!! 🙂
Við borðuðum hádegismat í Ikea, enda ekki hægt annað en að BÆTA á sig húsgögnum eftir að hafa kvartað og kveinað yfir öllu draslinu sem við eigum. Við festum kaup á skrifborðsframlengingu svo ég geti aðeins breitt úr mér á skrifstofunni. Ó hrúgur af pappír, je t’aime!!
Ekki tókst okkur hins vegar að finna “endaborð” fyrir einn sófan okkar. Okkur vantar helst litla hillu/borð til að hafa á milli veggjarins og litla sófans sem á skal geyma fartölvu og annað dót sem á það til að daga uppi á stofuborðinu sjálfu, mér til pirrings. Það komu nokkrir kostir til greina í Ikea í dag, en við gleymdum blaðinu með mælingunum svo ekkert var keypt. Svo hjálpaði ekki að ég bara hrundi andlega og líkamlega í miðri búð (fyrirtíðaspenna?) og því var lítið að gera en að keyra heim, borða súkkulaði og sofna. Það hjálpaði að Bjarki svaf á sínu græna eyra eftir að vaka í allan morgun.
Finnur hetja fór á meðan í Target og keypti sitt af hverju sem okkur vantaði. Ekki nóg með það heldur fór hann líka út með þvottinn, náði í Önnu Sólrúnu OG eldaði kvöldmat. Allt á meðan við mæðginin hrutum í sófanum. Ekki slappt það! 🙂
Núna í kvöld horfðum við á Night at the Museum sem var létt froðusnakk eftir þyngri myndir eins og Volver. Finnur sofnaði yfir myndinni (ekki skrítið) og ég tók út dansmottuna sem hefur legið í dvala í heilt ár, ef frá er skilið gærkvöldið, en við A&S; tókum nokkur lög þá. Mig hefur langað til að hala fram dansmottuna í lengri tíma, en nú er loksins hægt að gera það án þess að standa í stórframkvæmdum til að losa gólfpláss. Víííí! 🙂
Svo verð ég nú bara að senda samúðarkveðjur heim á klakann með veðrið. Mér verður hugsað til vetursins 99-00 þar sem Reykjavík var hvít frá nóvember fram í apríl. Við Finnur vorum rosalega til í að flytja til Kaliforníu eftir þann vetur.