Bless, bless gamla íbúð
Við skiluðum af okkur lyklunum af gömlu íbúðinni í dag. Finnur byrjaði að þrífa hana í gær og kláraði efri hæðina. Í dag tók hann eldhúsið í gegn og ég henti því sem var eftir í bakgarðinum. Þar með er sá kapítuli búinn og nú getum við einbeitt okkur að nýju íbúðinni.
Sem stendur er eldhúsið og borðkrókurinn kominn í gott stand, og þar við situr. Á morgun er síðasti frídagurinn hans Finns, og vonandi náum við að ganga frá flestu þá. Svo kitlar mig í puttana að fara í smá Ikea heimsókn til að kaupa auka gardínustöng, kannski nýjar myndir í rammana og svo auka skrifborðs-borðplötu, svo að ég geti dreift almennilega úr mér í nýju skrifstofunni.
Í kvöld elduðum við okkar fyrstu kvöldmáltíð í nýja húsinu og deildum með Augusto og Söruh. Kerri og John stoppuðu reyndar við í smá stund, enda við í meiri alfaraleið en áður og nær þeim í þokkabót. Í gær borðuðum við hins vegar kvöldmat í Google. Já, við gerðum okkur sérstaka ferð þangað með gríslingana og borðuðum með nokkrum vinum. Við vorum alls ekki eina fólkið að borða kvöldmat með krakka, ég held að ég hafi talið næstum 10 fjölskyldur að gera slíkt hið sama – enda ókeypis og góður matur. 🙂