Á góðu róli
Það hefur verið mikið potað í Bjarka undanfarna daga. Hann fór til barnalæknisins á þriðjudagsmorgun og fékk þar sprautur. Eftir hádegi kom kona heim til okkar frá “Early start” til að kíkja á þroska Bjarka. Hún spjallaði við mig og lék svo við Bjarka og “prófaði” hann í leiðinni. Henni leist vel á og gaf mér nokkur ráð með áframhaldandi leik við Bjarka, sérstaklega með tilliti til að fá hann til að leika meira við fæturnar á sér.
Á miðvikudagsmorgun vaknaði hann með blautan hósta (leikskólapest!) og vægan hita, líklega út af flensusprautunni. Við gáfum honum smá hitastillandi, en líklega ekki alveg nógu snemma því að hann var fúll fram eftir morgni. Það var kannski ekki alveg nógu sniðugt því að hann átti tíma í þroska-athugun á spítalanum…
Við sem sagt mættum þangað og töluðum fyrst við félagsráðgjafa sem spurði okkur hvernig gengi. Síðan komu læknar (eldri kona og svo læknanemi) og eldri læknirinn skoðaði Bjarka (hringdi bjöllum, lét hann fá dót, o.s.frv.) á meðan sú yngri yfirheyrði mig um sjúkrasöguna hans. Bjarki var ekkert sérstaklega samvinnuþýður, en lækninum leist vel á hann, og sagði það eina sem hún hefði séð væru “snögg viðbrögð” (“brisk reflexes”) en að það þyrfti ekki að hafa neina sérstaka þýðingu. Stæðarlega séð er hann á 25% línunni ef maður tekur tillit til að hann sé 3 mánuðum yngri en raunverulegur aldur segir til um.
Hún sagði að hann kynni það flest sem 4-5 mánaða börn kynnu, t.d. færir hann dót á milli handa, stendur vel í fæturnar, veltir sér á hliðina til að teygja sig eftir dóti, situr sæmilega o.s.frv. Þar sem hann var fúll á móti ákvað hún að sleppa okkur við “occupational therapistann” og við sluppum því nokkuð vel. Þegar út var komið steinsofnaði Bjarki í 2 tíma. Vaknaði svo í miðjum hópfundi og kúkaði tveggja daga skammti sem að sjálfsögðu fór út um allt! Síðan fórum við heim og Bjarki svaf meira og minna þangað til Anna og Finnur komu heim klukkan 18.
Hóstinn er enn til staðar í dag en hann er virðist amk ekki vera að versna. Held að hann sé að mestu hitalaus, með nokkrar kommur í mesta lagi. Það er rigning úti, en ég er búin að lofa að hitta gamla proffann minn eftir hádegi, svo ég vona að það stytti upp bráðum.