Tréin fá að kenna á því
Þeir eru búnir að vera að spröngla (!?!?) um í trjánum hérna í allan dag og saga niður dauðar greinar með litlum keðjusögum. Síðan ýta þeir greinunum inn í viðarsaxara sem mylur þær niður í litla búta. Það er því búið að vera heilmikill hávaði hérna eftir hádegið, en að sjálfsögðu hefur Bjarki sofið í gegnum öll ósköpin (með nokkrum drykkjarhléum samt).
Ég segi að sjálfsögðu, því að undanfarna daga hefur hann næstum ekkert viljað sofa á daginn. Í fyrradag tók hann þrjá 10 mínútna lúra, þar til ég gafst upp um þrjúleytið og við lögðum okkur saman í tvo tíma (hann reyndar vaknaði nokkrum sinnum í þeim lúr en sofnaði strax aftur). Gærdagurinn var keimlíkur, bara örstuttir lúrar og svo vaknað og kúkað all hressilega eða rekið við. Gott að daglegi hafragrauturinn er að renna sæmilega vandræðalaust í gegn!
Þannig að lykillinn að góðum síðdegislúr virðist annað hvort vera mömmubringa eða almenn læti. Gaman að þessu!
Erum annars búin að vera nokkuð duglega að pakka. Ég treysti Finni svona rétt mátulega í pökkunardeildinni, og því hefur hann aðallega verið í grisjunardeildinni, þar sem hann stendur sig svakalega vel. Ég á nefnilega alltaf svo erfitt með að henda pappír, vil helst eiga allt. Ég á t.d. allt of mikið af gömlum kortum, sem ég skoða bara þegar við flytjum, eða tökum djúphreinsanir. Svo skila ég þeim aftur á sama stað – og finn í næstu djúphreinsun/flutningum. #andvarp#
Er annars farin að sjá nýju íbúðina í hyllingum. Ætlum að færa allt skrifstofudótið upp í aukaherbergið og meiri partinn af bókunum líka. Markmiðið er að það verði hægt að ganga um stofuna og eldhúsið án þess að skáskjóta sér á milli húsgagna og barnadóts. Barnarólan og kerrubotninn voru líklega dótið sem braut kamelsbakið og nú er nóg komið! Svo erum við líka með þessar fínu fartölvur, þannig að við þurfum ekkert að vera með stóra tölvu niðri í stofu. 🙂