Súkkulaðihörgull
Ég er háð súkkulaði. Ef ég fæ ekki daglegan skammt af súkkulaði þá verð ég öll vitlaus í hausnum og máttlaus í líkamanum. Það var því nokkuð áfall að Whole Foods fjarlægði allt uppáhalds súkkulaðið mitt núna um daginn vegna þess að það gleymdist víst að prenta á umbúðirnar að súkkulaðið gæti innihaldið ofnæmisvaldandi mjólk og trjáhnetur.
Ekki nóg með að þetta er besta súkkulaðið sem þeir selja, heldur er það líka hræódýrt – og því blóðugt að kaupa staðgengla. Við höfum því dregið lappirnar í því að kaupa súkkulaði – alltaf að bíða eftir að góða ódýra súkkulaðið snúi aftur – og á meðan hef ég hægt og rólega (eða kannski á meðalhraða?) étið mig í gegnum gömlu birgðirnar af súkkulaði sem höfðu safnast upp (bökunarsúkkulaðið fyrir jólin t.d.) en bliknuðu í samanburði við góða súkkulaðið.
Í gær var hins vegar allt það súkkulaði upp urið og þá góð ráð dýr. Rigning úti og “vindur” og því ekkert sniðugt að fara út í göngutúr með þann litla. Var ég þá ekki svo heppin að finna aftur dollu af súkkulaðiðdufti sem Þóra og Lárus arfleiddu okkur af þegar þau fluttum til Íslands fyrir x mörgum árum síðan. Ég hafði alltaf haldið að þetta væri bara bökunarkakó, en í ljós kom að þetta er fínasta kakómaltsduft. Jei fyrir því og kakóinu sem ég sötra þessa dagana kát og horfi á rigninguna úti. 🙂