Stormviðvaranir
Það er búist við “stormum” hérna á svæðinu næstu daga. Ósköpin áttu að dynja á síðdegis í dag, en við urðum ekki vör við meira en smávægilega rigningu og smá vind. Næsta lægð á að sigla inn á svæðið í nótt og þá megum við eiga von á meiri rigningu. Sem fyrr hristum við hausinn yfir kalifornísku stormunum, en erum samt fegin að vera ekki á ferð uppi í fjöllunum þar sem ég býst við að allt eigi eftir að fyllast af snjó.
Í öðrum fréttum þá fór Anna á leikskólann í gær og fannst gaman að hitta vini sína aftur. Finnur verður í fríi út þessa viku – svona fríi eftir fríið – því að það er ekki mikið um afslöppun með Önnu Sólrúnu hérna heima. Við náðum að taka örlítið til í gær og í dag, en það er svona “work in progress”. Helst dundum við okkur við að spila Sam og Max leikinn (erum á síðasta kaflanum núna) og horfa á bíómyndir í gegnum Netflix áskriftina sem við fengum í jólagjöf frá Söruh og Augusto.
Reyndar tókum við okkur Finnur til og tókum nokkrar myndir af Bjarka núna í kvöldsárið. Ég er alltaf að sjá fleiri og fleiri (mest hálf-amatöra) bjóða þjónustu sína til myndatöku á netinu, og ég fór bara að pæla hvað við gætum gert með þær græjur sem við eigum núna. Það helsta sem okkur vantar til að geta tekið “alvöru” stúdíó myndir (fyrir utan það að vita hvað í ósköpunum við erum að gera) er pláss, stúdíó-bakgrunnar og svo alvöru lýsingargræjur (t.d. regnhlífaflass).
Við skelltum því dökku flísteppi yfir gólfið og sófann og Finnur hélt á Bjarka í gegnum teppið á meðan ég tók myndir í gríð og erg. Við náðum nokkrum ágætum myndum, en eins og ég sagði þá var þetta meira svona tilraun og vonandi náum við að prófa okkur meira áfram í framtíðinni. Ég held að ég bíði amk í bili með að panta tíma í alvöru stúdíói – við sjáum hvað setur!
Bjarki 6 mánaða en samt eiginlega bara 3ja mánaða.