Læknisheimsókn
Fórum með Bjarka til barnalæknisins til að fá RS-vírus bólusetninguna (gerist á 4ra vikna fresti fram í apríl eða svo) og í leiðinni var hann vigtaður. Hann er núna orðinn 5.78 kg og 61 cm sem er svo sem allt í lagi, en ekkert spes frekar en fyrri daginn. Hún hlustaði líka á hann og sagði að lungun hljómuðu fín, en gáfu okkur leiðbeiningar um við ættum að fylgjast með á komandi dögum.
Hún spurði út í formúlumál og hvort hann væri að fá meiri formúlu núna en áður og ég neitaði því. Minntist svo á að við hefðum prófað “hina” formúlutegundina um helgina sem hefði valdið honum “harðlífi” (miklum rembingi). Hún spurði þá hvort að við værum farin að gefa honum fasta fæðu, og ég varð að játa að við værum bara búin að kaupa hrísgrjónamjöl og haframjöl en ekki farin að nota það.
Í laumi hefur mig ekkert langað til að prófa hrísgrjónamjölið því það olli Önnu meltingartruflunum og harðlífi. Ég varð því ekkert smá kát þegar hún gaf okkur grænt ljós á að sleppa hrísgrjónagrautnum og fara beint í haframjölið því hann er orðinn svo “gamall”. Ég sló því til í hádeginu og gaf Bjarka sinn fyrsta hafragraut og hann virtist bara ánægður með hann. 🙂
Annars hefur Bjarki verið frekar fínn af kvefinu í dag. Bara fengið eitt eða tvö hóstaköst og fengið saltvatn í nös tvisvar held ég. Vona að þetta sé ekki lognið á undan storminum… 🙂
Eftir hádegi fór ég og spjallaði við nýja leiðbeinandann minn og hann kom með góðar og uppbyggjandi tillögur fyrir það sem ég þarf að gera. Það var hálfgert sjokk að fá allt í einu alvöru ráðleggingar og ég vona að ég geti farið eftir þeim. Hefði líklega átt að skipta um leiðbeinanda fyrir lööööngu síðan, en það hefði verið erfitt að rökstyðja það án þess að valda sárindum og vandræðum. Það vill nefnilega til að nýi leiðbeinandinn er fyrrverandi nemi gamla leiðbeinandans sem gerir hlutina örlítið flóknari.
Á morgun þarf ég samt að hitta gamla leiðbeinandann því hann er í “bænum”. Ég veit ekki alveg hvað við ætlum að ræða, það verður bara að koma í ljós.