Janúar hálfnaður
Ef einhver skyldi ekki hafa tekið eftir því þá er þetta blogg mitt þerapíu-blogg, það er að segja, ég blogga í staðinn fyrir að vera í þerapíu. Ég sé alltaf fyrir mér að þerapía gangi að miklu leyti um að koma orðum að hlutunum og velta sér svolítið upp úr þeim. Ef maður er nefnilega með of mikið í hausnum þá hafa endalausu vangavelturnar ekki pláss til að veðrast og þær þróast aldrei í fullformaðar hugsanir. Þannig að ef maður nær að aftappa af heilanum, þá er meira pláss og manni líður betur.
Þannig var það ómetanlegt á síðasta ári að geta bara böðlað út úr sér öllum smáatriðunum og stóratriðunum á tölvuna. Það hjálpaði líka að hugsa til þess að góður slatti af fólki væri að fylgjast með og ég sá fyrir mér að hver og einn tæki smá af vandanum upp á sínar hendur og þar með var minni vandi eftir fyrir mig. Ég þakka því lesendum enn og aftur kærlega fyrir stuðninginn. 🙂
Vildi annars minnast á mjólkurmál. Las þennan póst hérna og hef síðan þá verið dugleg að taka lýsi, borða hafragraut og drekka vatn. Veit ekki hvort það hjálpar, en held að það geti ekki skaðað! Ég á það til að vera rosalega birgðalág einn til tvo daga en svo kemur þetta aftur. Ég veit að þetta er stress-tengt, og verð að viðurkenna að það er erfitt að stressa sig ekki á því að þetta sé stress-tengt. Kannski að ég ætti að koma mér í alvöru þerapíu einhvern tímann!?!?! 🙂
15. janúar 2008 – Anna Sólrún skellibjalla og Bjarki Freyr káti karl.