Húsnæðisguðirnir hafa talað
Við Finnur reyndum að klambra saman “ákvörðunar-tréi” í gær til að “besta” hvað við ættum að gera í húsnæðismálum. Eftir miklar vangaveltur komumst við að þeirri niðurstöðu að það væri best að halda áfram að búa á kampus í bili, eða þar til okkur verður endanlega sparkað út þann 17. ágúst. Í sumar er þá ætlunin að taka “púlsinn” til að sjá hvar hlutirnir standa til að ákveða næsta skref.
Okkur sýnist sem að valkostirnir í sumar verði tveir: að flytja til Íslands í ágúst eða flytja suður um 2-3 bæjarfélög (þar sem leigan er viðráðanlegri) og búa þá áfram hér í 6-12 mánuði (flestir leigusamingar eru árslangir). Það kemur kannski engum á óvart að Finnur hefur ekkert á móti því að vinna lengur fyrir Gúgul og með mínum vinnuhraða þá er ólíklegt að ég útskrifist í lok sumars. Það er því ekki loku fyrir það skotið að við verðum hérna í sólarparadísinni í ár í viðbót…
Það sem flækir málið dálítið er dagvistin. Bjarki á nokkuð öruggt hálfsdagspláss á leikskólanum hennar Önnu, spurningin er bara hvort hann fái það í byrjun eða lok sumars. Ef/þegar ég næ hins vegar að klára, þá missum við réttinn á plássunum (sem eru bara fyrir Stanford fólk) en á móti kemur að það er séns að þau fái inni í Gúgul dagvist nálægt vinnunni hans Finns. Það er sem sagt mikið humm og haaaa í gangi.
Húsnæðisguðirnir lögðu hins vegar blessun sína á áframhaldandi kampus-búsetu í dag því eftir þónokkrar hrókeringar (að því er mér skilst) þá var okkur boðin 3ja svefnherbergja íbúð í staðinn fyrir 2ja herberja íbúðina sem við erum í núna. Þar með fáum við smá pláss til að “anda”, enda heldur þröngt á þingi heima hjá okkur núna.
Ég fór áðan og kíkti á tilvonandi íbúðina okkar og leist ágætlega á utan að frá séð. Sýndist samt að eldhúsborðkrókurinn gæti verið minni, en ég er ekki frá því að stéttin fyrir utan (“bakgarðurinn”) sé stærri. Erfitt að segja með stofuna og herbergin. Raðhúsið snýr reyndar akkúrat öfugt við núverandi húsið okkar, þannig að við eigum eftir að fá sólina inn um stofugluggana á daginn.
Slökkviliðstöðin er í beinni sjónlínu, en það ætti að vera í lagi því við erum vön sírenunum í þeim. Þeir kveikja nefnilega alltaf á þeim til að fara yfir stöðvunarskylduna við okkar hús… Eins og alltaf þá myndar raðhúsið hring með öðrum raðhúsum og í miðjunni er leikvöllur. Nýi hringurinn er töluvert minni en gamli hringurinn, og mér leist vel á það. Miklu meira “kósi” og það var nóg af rólum sem ætti að gera Önnu káta.
En sum sagt… á þriðjudagsmorgun í næstu viku eigum við því von á burðarmönnum sem ætla að flytja allt draslið okkar, okkur að kostnaðarlausu því skólinn er að “neyða” okkur til að flytja. Við erum þegar búin að fá 40 kassa afhenta og nú er að sjá hvað þeir duga langt… Ég er búin að fá vilyrði fyrir fleiri kössum, ef þarf… 🙂
Læt fylgja með myndir af Bjarka í peysunni sem Anna amma prjónaði handa honum síðasta sumar. 🙂
Á maganum í sófanum í fínu peysunni sem amma Anna prjónaði.
Bjarki er farinn að geta setið uppi óstuddur í nokkrar sekúndur.
Að sjálfsögðu hrynur hann niður að þeim loknum, en hann er greinilega allur að styrkjast.
Eftir vætusama viku þá stytti loksins upp í dag og við röltum um kampusinn þveran og endilangan.