Bless bless tankar
Í dag kom loksins maður frá súrefnis-fyrirtækinu og tók súrefnis tankana sem hafa staðið ónotaðir frá byrjun desember. Það virðist vera sem að endurtekin skilboð frá lækninum hafi ekki ratað á réttan stað og því tók þetta svona langan tíma. Alveg merkilegt hvað maður þarf að ýta á eftir sumum hlutum í kerfinu til að eitthvað gerist.
Annars fannst okkur það gráglettilegt að tankarnir færu akkúrat þegar Bjarki fengi sitt fyrsta kvef. Vonandi þarf hann ekki á þeim að halda aftur!! Hann er búinn að hafa það að mestu ágætt í dag, en endrum og eins koma löng hóstaköst svo og nefrennsli. Hann hefur tvívegist hóstað svo mikið að hann hefur ælt (í gærkvöldi og í morgun), líklega því eitthvað hefur fests í hálsinum á honum. Anna átti það til að gera þetta líka, en hún er með mjög sterkt kúgunarviðbragð eins og Finnur.
Það var annars frídagur í dag og því lítið gert af viti. Okkur tókst samt að koma okkur í heimsókn til bekkjarsystur Önnu eftir lúr þar sem við borðuðum góðan mat. Nú er bara að vona að nóttin hjá Bjarka verði bærileg. Síðasta nótt gekk ágætlega fyrir utan eitt stórt hóstakast í morgunsárið. Best að vera tilbúin með saltvatnið… 🙂