Þriðji í Önnu-afmæli
Í dag héldum við upp á 4 ára afmælið Önnu Sólrúnar í þriðja skiptið! Fyrsta skiptið var fyrir jól á leikskólanum þar sem við mættum með múffur fyrir bekkinn og fjögur kerti sem Anna blés á. Annað skiptið var á sjálfan afmælisdaginn (jóladag) en þá bökuðum við múffur og köku og hún opnaði gjafir frá fjölskyldu og vinum á Íslandi. Þetta var hins vegar “alvöru” barna-afmæli með stelpunum úr bekknum hennar svo og nokkrum Íslendingum. Þar með held ég að það sé algjörlega og fullkomlega búið að halda upp á þetta blessaða afmæli!
Við vorum að sjálfsögðu á síðustu stundu með alla skipulagningu (en ekki hvað?!) en þetta hafðist allt, sérstaklega með dyggri aðstoð Söruh sem hjálpaði okkur að skreyta salinn og náði svo í pizzurnar og ískökuna. Það voru um 40 manns sem mættu og við vorum með föndurdót og blöðrur til að hafa ofan af fyrir krökkunum áður en það kom að hádegismatnum. Í lokin var svo farið út á leikvöllinn sem er við húsið þar sem krakkarnir hlupu af sér sykurinn.
Eftir veisluna og tiltektina fórum við heim og opnuðum alla pakkana. Anna fékk fullt af góðum gjöfum sem eiga eftir að vera mikið notaðar. Ég verð að viðurkenna að ég velti stundum fyrir mér hvort maður eigi að biðja gesti að sleppa gjöfunum eins og sumar fjölskyldur gera. Hins vegar hefur reynslan verið sú að fólk gefur frábæra hluti sem mér myndi aldrei detta í hug að kaupa sjálf (af ýmsum mis-vitrum ástæðum) svo ég hef ekki hjarta í mér til að frábiðja gjafir.
En þar með er afmælishaldi lokið í bili og næsta hraðahindrun í okkar lífi eru flutningarnir í febrúar. Jibbííí…
Krakkanir að föndra með blöðrurnar yfir sér.
Blásið á kertin á ískökunni.