Stund á milli stríða
Jæja, þá eru 75% heimilisins djúpt sokkin í síðdegislúr. Sem er ágætt því ró og friður eru ágæt. Anna Sólrún greyið hefur átt svolítið erfitt með sig undanfarna daga (og reyndar vikur) enda eitthvað mikið í uppsiglingu (Jól! 4ra ára afmæli!!) og því ágætt að hún náði að sofna í dag. Jólaundirbúningur gengur annars slitrótt… Ég hef þurrkað af einni og einni hillu í stofunni á meðan Bjarki danglar í dót á gólfinu (í gær með undirleik Bubba á afmælistónleikunum sínum), og Finnur og Anna keyptu míní-jólatréi í potti í gær, ásamt því að Finnur hefur staðið í stórræðum við að skipuleggja matseðil jólanna.
Ætli við látum ekki ryksugun og svoleiðis stórframkvæmdir bíða þar til á síðustu stundu, enda vonlaust að halda í jólin í ró og friði, það þarf allt að vera á skrilljón fram á síðustu stundu!! Eða kannski ekki – við sjáum hvað setur og hvað gerist þegar síðdegislúrnum líkur.
Annars skrítið að hugsa til þess að á morgun séu jól. Hér er heiðskýrt að vanda, stilla og 12 stiga hiti um miðjan dag. Það verður reyndar dimmt fljótlega eftir fimm, en þess fyrir utan er ekki mjög jólalegt um að litast. Inni við er samt ágætlega jólalegt því í gær tókum við okkur loksins til og hengdum jólaseríu upp hringinn í kringum stofuna og inn á gang, en serían sú er búin að búa á gardínustönginni síðan í byrjun desember… 🙂
Hvað um það, við óskum öllum gleðilegra jóla á morgun og verðum með ykkur í anda þar sem við leggjum lokahöndina á jólaundirbúninginn (hvernig væri að slá þessu upp í kæruleysi og baka bara piparkökur?!) vitandi að á Íslandi sitji allir við jólaborð og taki upp jólapakka! 🙂