“Piparkökur”
Við Anna Sólrún bökuðum piparkökur núna í dag. Eins og fyrri ár fór ég á netið að leita mér að uppskriftum og eins og fyrri ár komst ég að því að allar “alvöru” uppskriftirnar krefjast þess að deigið sé inni í kæli í heilan sólarhring. Það passaði ekki alveg við okkar plön, svo við notuðumst við eina uppskrift sem mátti baka strax. Til að ég þurfi ekki að klóra mér í kollinum aftur á næsta ári þá fylgir hér uppskrift dagsins. Hún er úr Eldhúsi Vefrúnar:
250 gr. hveiti
250 gr. púðursykur
125 gr. smjör (lint)
1 stk egg
1,5 tesk. lyftiduft
0,5 tesk. matarsódi
1 tesk. engifer
0,5 tesk. kanill
0,5 tesk. negull
– Öllu skellt saman í skál og hnoðað rólega saman.
– Kælt í smá stund.
– Gerðar litlar kúlur og settar á bökunarplötu og síðan þrýst á með fingri eða gaffli.
– Bakað við 180 gráður í 8-10 mín.
Afraksturinn minnti á Ikea piparkökurnar því þær “láku” út í ofninum og urðu örþunnar á kælibrettinu. Sum sagt eins gott að við reyndum ekki að fletja þær út og búa til alls konar form! En bragðgóðar eru þær, enda ekkert nema hveiti, sykur, smjör og braðgefni!