Pakkar!
Það er eitt skemmtilegt við það að halda jólin langt frá fjölskyldunni, og það er að undanfarna viku hefur daglega borist amk einn pakki í póstinum. Fyrir mér er það á við daglegt knús að heiman, því pakkarnir fúnkera hálft í hvort sem “áþreifanleg” sönnun um að fólk hugsi til manns þó maður sé í sjálskipaðri útlegð. Skiptir þar að sjálfsögðu stærð pakkans engu máli (eða til hvers hann er!) heldur bara það að einhver hafi haft fyrir því að senda eitthvað til okkar. Ég þakka kærlega fyrir hugulsemina – og gjafirnar!! 🙂
Annars verður þetta fyrsta jólahald okkar Finns ein með börn, og það verður sérstakt í sjálfu sér. Helst er ég núna að velta vöngum yfir því hvar í ósköpunum við getum komið fyrir jólatréi. Ég held að við endum mögulega á að kaupa lítið lifandi jólatré í potti sem verður geymt úti á verönd þar til á aðfangadag jóla, síðan kippt inn og skreitt, og skutlað út aftur daginn eftir… 🙂
Sjáum hvað setur. Læt fylgja með myndir af Bjarka frá því í dag, en hann hefur verið frekar órólegur í maganum í dag, og þá sérstaklega í kvöld. Það hlaut að koma að því eftir þrjá afskaplega fína daga í röð. Ah well…
Í brúnum fötum aldrei þessu vant.
Konurnar í gær voru ánægðar með að hann setur hendurnar saman fyrir
framan sig. Það hjálpar að hann er með tiltölulega langar hendur!
Þolinmæðin úti, enda orðinn frekar þreyttur!