Jólablús…
Desember ber alltaf með sér öfgafullar tilfinningar. Í gær var ég öll ferlega jólaleg (takk fyrir kortin líka!!), en nú þyrmir yfir mig öllu því sem ég “ætti” að gera fyrir jólin. Hvernig væri nú að taka í alvörunni til og minnka aðeins óreiðuna og kaós-stig íbúðarinnar?! Hvernig væri nú að vinna góðan slatta á hverjum degi svo ég losni einhvern tímann héðan?! Hvernig væri að velja nú góðar myndir og fylla út barnabækur Önnu og Bjarka áður en þau verða fullorðin og flytja að heiman?! Hvernig væri nú að skipuleggja afmæli Önnu Sólrúnar?! Hvernig væri nú að klára gjafa-innkaup sem fyrst svo ég þurfi ekki að berjast í gegnum mannþröngina um helgi?! O.s.frv. o.s.frv…
Eitt skal þó afgreitt í fyrramálið og það er jólaklipping fyrir okkur mæðgur. Ég fór áðan í göngutúr með Bjarka út á pósthús og á leiðinni til baka labbaði ég inn á fimm klippistofur áður en ég fann stað sem var með lausan tíma fyrir okkur tvær á morgun, og ekki óheyrilega dýr. Ég get svo svarið það að á einum staðnum var mér sagt að barnaklipping kostaði það sama og fullorðinsklipping, $105 takk!!! Á öðrum stað fékk ég langan fyrirlestum um að stílistarnir tveir væru með tuttuga ára reynslu og menntaðir hjá þessum og þessum og að þeir rukkuðu $100 fyrir fullorðna og $50 fyrir börn, en klipptu samt bara börn fasta-kúnna. Á þriðja staðnum var mér sagt að eini klipparinn sem klippti börn ætti fyrst lausan tíma þann 29. desember…
Mér leið satt best að segja svoldið eins og karakter Júlíu Róberts í Pretty Woman þar sem sölukonurnar í dýru búðinni litu snögglega á hana og ákváðu svo að vísa henni á dyr því hún væri greinilega ekki borgunarmanneskja/rétta týpan! Það má líka ekki gleyma því að maður “tippar” hárgreiðslufólk, svo uppgefið verð er bara byrjunin…
Það hjálpar ekki upp á andlega ástandið að ég stakk upp á við prófessorinn minn að verja í apríl og var ekki skotin niður. Fékk kannski ekki neitt svakalega uppörvandi viðtökur, en að sannfæra yfirmennina um að já-maður-sé-í-alvörunni-að-klára virðist vera partur af því að útskrifast í þessari deild . Það er nokkuð víst að skólinn fær seint lof frá mér fyrir góða handleiðslu; þetta er algjört syntu-eða-drukknaðu umhverfi. En núna er ég sem sagt búin að setja mér markmið og er sem afleiðingu af því lömuð af stressi, og kem engu í verk. Týpískt!!