Eyðsluklær
Við gerðum nákvæmlega ekkert af viti í gær, fyrir utan að þvo þvott og fara í matvörubúðina. Um kvöldið spiluðum við Finnur reyndar fyrsta partinn af Sam & Max Season 1 tölvuleiknum sem ég gaf honum í jólagjöf og það reyndist ágæt skemmtun.
Í dag vorum við aðeins líflegri og Finnur fór með Önnu í Palo Alto Children’s Museum og Zoo fyrir hádegi þar sem hann rakst á Sólveigu og Nikulás. Ég hafði reyndar hugsað mér að nota jólafríið til að heimsækja San Francisco dýragarðinn, en það hefur ekkert orðið úr því því garðurinn hefur verið lokaður síðan eitt tígrisdýrið slapp úr gryfjunni sinni og drap mann. Afskaplega óhuggulegt það.
Eftir síðdegislúrinn þá ákváðum við að skella okkur í búðarferð að kíkja á postulín. Diskarnir okkar hafa nefnilega verið að týna tölunni og nú er svo komið að við eigum bara 6 djúpa diska og 8 venjulega diska og við ítrekað að koma að tómum skápnum. Í upphafi áttum við 12 diska sett keypt í eðal-búðinni Walmart en þeir eru farnir að láta á sjá, brotið upp úr brúnum og allir orðnir “útkrotaðir” (svona svartar línur sem koma þegar maður dregur hníf yfir diskana) eftir sjö ára notkun.
Leið okkar lá því í Macy’s hérna í nágrenninu og þar rákumst við á sett (Twist Alea Caro) sem okkur líkaði báðum vel við. Þeir voru á eftir-jóla-útsölu og við stukkum því til og keyptum 12 stykki af diskum og skálum, nokkra bolla og framreiðsludiska. Þegar heim var komið áttaði ég mig á því að litirnir á diskunum eru glettilega líkir gömlu regnbogalituðu gluggatjöldunum okkar í Byggðarenda. Mér fannst það dáldið skondið… 🙂