Aðfangadagur
Þá er aðfangadegi jóla lokið. Bjarki greyið var í upphafi dags settur í 6 mánaða skoðun þar sem hann fékk 4 bólusetningarsprautur, þar á meðal fyrir RS-vírusinn sem hefur víst verið að ganga hérna. Hann mældist 5.4 kg og 59 cm. Á meðan náðum við Anna Sólrún í kjötið hjá slátraranum (sérpöntuð grísasteik) og keyptum svo í matinn í WholeFoods.
Síðan tókum við okkur til og skreyttum pínulitla jólatréið saman og Anna fékk líka að skreyta gamla gervi-jólatréið okkar, sem fannst innst í geymslunni og er “hennar” jólatré. Við þetta tækifæri varð okkur hugsað til Eddu Björvins að leika Færeying að gera grín að Íslendingum og hríslu-jólatrjánum þeirra (í Úllendúllendoff?): “Tið Íslandingar eru alltav sömu molbúarnir!” 🙂
Í gær fórum við Anna svo saman og keyptum jólagjafir fyrir Hrefnu og hún var með reglurnar alveg á hreinu; endurtók margoft það sem ég hafði brýnt fyrir henni: “Það má ekki að segja mömmu hvað er í pökkunum hennar”.
Anna var í essinu sínu í kvöld líka (andstætt Bjarka sem var ósáttur við sprautu-eymslin); hún réð sér varla af kæti yfir því að jólin væru að ganga í garð og ekki skemmdi fyrir að hún fékk möndluna í möndlugrautnum og fékk því Lindt hnetu-súkkulaðistykkið sem ég keypti í möndlugjöf. Ég er svo vanur því að fá möndlugjöfina undanfarin ár að ég var ekki alveg búinn að átta mig á þeim möguleika að 3ja ára dóttir mín gæti unnið hana. En hvað um það – hún verður þá bara að vera hyper fram á mitt næsta ár. 🙂
Við erum annars núna bara í rólegheitum í stofunni, búin að opna allar gjafirnar fyrir utan Hrefnu-gjafir, en hún hélt á Bjarka seinni part kvölds og sá um að skrásetja allt sem var opnað. Hér á þessu heimili er allt í Dewey Decimal System. 🙂 Bjark er núna steinsofandi á sófanum og Anna trallandi og syngjandi uppi í rúmi eftir að hafa opnað þrjú þúsund jólagjafir til sín og Bjarka. Hún kallaði síðan á mömmu sína til að taka bækurnar sem hún var búin að lesa og klappa henni á bakið. Þegar Hrefna var á leiðinni niður stigann að því loknu hrópaði Anna á eftir henni: “Mamma, opnaðu súkkulaðikassann næst!”
Feðginin að skreyta jólatrén
Mæðgurnar ráðast á pakkaflóðið