Stressuð móðir
Gærdagurinn var nú ekki sá allra besti. Við byrjuðum á því að fara með Bjarka í læknisskoðun, þar sem hann mældist 4870 gr (10 lbs 12 oz) og svo mældi ég hann 56 cm (22.25 inches) á lengd meðan við biðum eftir að hjúkkan kæmi með RS bólusetningarsprautuna. Það þýddi að sá stutti hefur þyngst um 330 gr á 18 dögum, sem þykir heldur slappt svo að okkar var ráðlagt að bæta meiri formúlu í brjóstamjólkurpelann sem hann fær á kvöldin með vítamínum, og helst bæta við öðrum eins pela. Ekki nóg með það heldur vildi læknirinn líka að við hefðum samband við skurðdeildina til að láta skoða kviðslitssvæðin, því henni fannst þau heldur bólgin.
Ég athugði núna áðan og sá þá að Anna mældist 5,4 kg (11.9 lbs) og 58,5 cm (23 inches) þegar hún var tveggja mánaða. Það má svo sem hárreitast um hvernær Bjarki telst 2ja mánaða, kannski er það ekki fyrr en 5. des, en það lítur amk út fyrir að Anna hafi vinninginn hvað þetta varðar. Ég þarf að verða mér út um vaxtarlínurit og fara að teikna hann inn á það. Ég náði mér í vaxtarlínurita-gögn og teiknaði ásamt þyngd Bjarka. Ég lét heimkomudaginn, 1. okt., vera fæðingardaginn sem er nokkuð nærri lagi. Bjarki er svo sem ekkert á flæðiskeri staddur, en vonandi tekst okkur að halda honum nær 50% línunni en 25% línunni í framtíðinni.
Nema hvað, svo hringdi ég í súrefnisfyrirtækið til að spyrjast fyrir um súrefnisprófið og gæinn hringdi í mig og sagði að það gæti tekið 2 vikur að fá stykkið sem vantar. Þá hringdi ég í lungnalækninn til að athuga hvort að það væri hægt að gera þetta próf einhvern veginn öðru vísi, en nei, læknirinn vill víst bara bíða í þessar tvær vikur. Þar með var mér nú bara allri lokið, ekki nóg með að drengurinn sé ekki að þyngjast “nóg” heldur er nú alveg loku fyrir það skotið að við losnum við bévítans súrefnið. Ég urraði mig því í gegnum gærdaginn og vona að það sé nóg til að dagurinn í dag verði aðeins skárri…