Spæling
Fyrir viku síðan pantaði lungnalæknirinn hans Bjarka næturpróf, þar sem súrefnismagn í blóði er mælt yfir nótt. Á föstudaginn hafði ekkert heyrst frá einum eða neinum svo ég hringdi og fékk að vita að pappírar hefðu verið faxaðir fram og til baka alla vikuna en að núna ætti þetta að vera komið. Í dag hringdi svo maður frá fyrirtækinu sem sér um prófið (sama fyrirtæki og sér um súrefnið) og boðaði komu sína milli fjögur og fimm.
Seinna um daginn hringdi hann aftur og þá hafði hann áttað sig á því að Bjarki er ungabarn en ekki gamalmenni eins og flestir hinir kúnnarnir þeirra. Eitthvað heyrðist mér á honum að þetta ætti ekki eftir að ganga og þegar hann kom loksins um fimm-leytið kom í ljós að fína mælitækið sem geymir gögnin var bara með skynjara fyrir fullorðið fólk.
Hann þarf því að sérpanta skynjara fyrir ungabörn og það á aldrei eftir að koma í hús fyrr en í næstu viku því að á fimmtudaginn byrjar þakkargjörðar-hátíðin og þar með fjögurra daga helgi. Ég hváði reyndar þegar hann sagði mér þetta með skynjarann, því að Bjarki er örugglega ekki fyrsta barnið sem fer heim með súrefni. Hann sagði það vera rétt en að í flestum tilfellum séu börn send heim með súrefnismæli sem pípir ef súrefnið fer niður fyrir eitthvað ákveðið. Fólk segi síðan við lækninn að ekkert hafi pípt í viku og þá er súrefninu hætt. Við erum hins vegar ekki með neinn mæli en ef það er langt í að skynjarinn komi þá kannski biðjum við um svoleiðis græju í staðinn.
Það er hins vegar ljóst að við fáum ekki að hætta með súrefnið fyrir þakkargjörðarhátiðina sem er heldur fúlt. Samt svindlum við svoldið því að læknirinn var með getgátur um að Bjarki ætti ekki að þurfa súrefnið yfir daginn og því hefur hann fengið að vera rör-laus þá daga sem við skiptum um rör (eins og í dag…)