Saga úr foreldralandi
Hefði maður gert þetta með fyrsta barn? Bjarki vaknar yfirleitt um hádegi og sofnar 2 klst síðar. Núna áðan var hann alveg að sofna en var óvær sem þýðir að hann þarf að ropa. Ropinn fylgdi skömmu síðar og með honum þessi líka fína ælugusa. Hann náði að subba út gallann sinn en ég náði meiripartinum í taubleiu. Ég sá fyrir mér að nú þyrfi ég að skella drengnum í bað, með tilheyrandi seinkun á svefntíma og tilheyrandi pirringi yfir því.
Áður en að því kom ákvað ég samt að hringja í súrefnisfyrirtækið til að spyrjast fyrir um næstu nefrörssendingu, því að sjálfsögðu kom smá æla í gegnum nefið og inn í nefrörið og nú eigum við bara eitt eftir. Þar sem ég er í símanum tek ég eftir því að sá stutti (sem er núna búinn að jafna sig eftir ósköpin) er sofnaður. Það varð því úr að við fórum aftur í sófann, ég breiddi eina peysuna hans yfir bringuna, og lagði hann síðan ofan á hana og þar sefur hann nú á meðan ég freistast til að vinna…