Litlu hlutirnir
Það þarf ekki mikið til að gleðja móðurhjartað. Í dag tók það gleðikipp þegar mér var litið á Bjarka í stólnum sínum og ég sá að hann hafði gripið í eitt dótið og að hann hélt gripinu í dágóða stund. Þetta mun vera hans fyrsta “grip” að því er ég held, hingað til hefur hann aðallega lamið í dótið og flækt sig í því. Ekki nóg með að hann gripi einu sinni, heldur endurtók hann leikinn skömmu seinna. Við sjáum hvað setur með framhaldið, enda er þetta voða oft svona tvö skref áfram, og svo eitt afturábak.
Gærdagurinn var annars miklu betri en dagurinn þar á undan. Sá stutti virtist ná að losa loftið jafnt og þétt yfir daginn og því var hann meira og minna bara sallarólegur. Inn á milli komu reyndar stutt væluköst en þau liðu hratt hjá.
Í gærkvöldi komu Sarah og Augusto svo færandi hendi og elduðu hjá okkur kvöldmat. Ekki nóg með það heldur komu þau líka með afmælisköku fyrir Augusto sem varð 31 árs í gær. Við vorum tilbúin í þetta sinn og áttum 31 kerti fyrir kökuna. Þegar hún Sarah varð 29 um daginn þá vorum við talsvert kertalausari og hún fékk því tvö kerti á sína köku (annað sem á stóð 30 og á hinu 1)… 🙂
Talandi um afmæli þá á hann pabbi 26×2 ára afmæli í dag. Til hamingju með daginn! 🙂
Grip númer 2.
Spekúlerandi í ljóninu.
Bjarki 5 mánaða og eins dags – en samt eiginlega bara tveggja mánaða.