Læknisheimsóknir
Bjarki fór til augnlæknisins í gær, sem sagði að augun væru í góðu lagi og fullvaxin, svo hann þarf ekki að mæta til hans aftur. Jibbííí. Hins vegar á hann að mæta til annars augnlæknis eftir 4-6 mánuði til að athuga hvort Bjarki þurfi á gleraugum að halda, eða sé rangeygur.
Í morgun fór hann svo til barnalæknisins og fékk síðustu tvær sprauturnar sem tilheyra 4ra mánaða skoðuninni. Það var ekki öll píningin því svo voru teknar blóðprufur til að athuga innvortis ástand. Við verðum að játa upp á okkur sökina að hafa ekki verið mjög dugleg að gefa Bjarka pela með auka formúlu, eða vítamínum eða járni. Það byrjaði með því að okkur fannst sá stutti heldur pirraður í maganum alltaf hreint, svo við byrjuðum að sleppa formúlunni, svo vítamínunum og loksins járninu og magaástandið virtist betra.
Við sögðum lækninum frá þessu og hún bað okkur sérstaklega að prófa að gefa honum járn aftur því hann væri heldur blóðlítill. Við gerðum það um síðustu helgi og hlutum að launum öskrandi Bjarka svo þar með fór um sjóferð þá. Í dag var því verið að athuga hvar hann stæði án allra bætiefnanna. Í ljós kom að blóðið er betra núna en fyrir tveimur vikum svo að það ætti að vera í lagi að sleppa járninu því hann virðist vera farinn að búa til nóg sjálfur.
Hins vegar mældist hann í slæmum málum með alkalí-fosfatið sem þýðir að við þurfum að fara að gefa honum fyrirbura-formúlu aftur, því hann vantar kalk og fosföt til að styrkja beinin. Við erum því ekki laus við pela ennþá, en ég held að planið sé að prófa að gefa honum einn styrktan pela á dag og sjá hvað setur eftir 2 vikur. Annars er hann orðinn 4540 gr og þyngdist því um 290 gr á 13 dögum sem telst ásættanlegt.