Jólin frh.
Þetta er svona heldur klént fjölda-uppástungu-, beiðna- og tilkynningablogg, en ég ætla samt að láta vaða því það er auðveldara fyrir mig að útvarpa svona en að hafa samband við hvern og einn persónulega:
1) Þar sem að við erum ekki að koma heim um jólin, þá vil ég hvetja þá sem ætla að senda (ekki sér-íslenskar) gjafir að nýta sér vefverslanir eins og amazon.com sem eru staðsettar í USA. Það er svo miklu ódýrara en að kaupa vörur á uppsprengdu íslensku verði og borga þar fyrir utan póstburðargjald til USA. Eini gallinn er að sumar verslanirnar eru ekki hrifnar af ó-amerískum kreditkortum, en ég held að Amazon sé alveg sama og þeir selja næstum hvað sem er (líka föt, undir “apparel”). Ef keypt er fyrir meira en $25 á Amazon og maður er nógu snemma á ferðinni þá er hægt að velja ókeypis sendingu. Fyrir þá sem vilja spara, þá getum við pakkað gjöfum inn, en þá er gott að fá viðvörun í tölvupósti um að gjöf sé á leiðinni svo að við opnum kassann ekki fyrir framan Önnu. Og já, íbúðarnúmerið okkar er núna 102 en ekki B eins og var hér “í den”.
2) Já, Anna Sólrún á afmæli á jóladag. Þetta er svoldið viðkvæmt mál því maður heyrir ekki annað en að það hljóti að vera/sé ömurlegt að eiga afmæli um jólin. Eina jákvæða sem ég hef heyrt var frá einni sem sagði að það hefði alltaf verið gert mikið úr því að halda sér-afmælisveislu ótengda jólunum. Það er því planið hjá okkur, svo sér-afmælisgjafir eru vel þegnar. Það er von okkar að með því að hafa sér gjafir þá verði hún ekki komin á þá skoðun eftir nokkur ár að það sé algjör bömmer að eiga afmæli á jólunum. En því verður ekki neitað að þetta er hálf vandræðalegt.
3) Dúkkur, bangsar og önnur tuskudýr eru vinsamlegast afþökkuð. Við eigum þegar heilan dýragarð og hálft dúkku-fótboltalið (eða hálfa fegurðarsamkeppni) og hreinlega ekki pláss fyrir fleiri! Kubbar, föndurdót, búningar, föt, spil, púsl, bækur, tónlist o.s.frv. kemur allt vel til greina fyrir Önnu sem er að verða 4 ára. Hún notar samt föt fyrir 5 ára (er núna 109 cm). Bjarki á afskaplega fá leikföng, eitthvað af 6m fötum, færri af 9m fötum. Við eldra settið vitum ekkert hvað við viljum, höfum ekki gert neitt af viti í marga mánuði.