Jóla-hvað?
Í fyrsta skipti síðan jólin 2003 erum við ekki á leiðinni heim um jólin. Ekki nóg með að Bjarki verði líklega ennþá með auka-súrefni, heldur leggjum við ekki í allar nýju bakteríurnar og kuldann og allt það með hann. Jólagjafir ætlum við samt víst að gefa, enda ég með jólagjafabakteríu og finnst alveg ferlega gaman að stússast í þeim.
Í dag dró ég því Önnu Sólrúnu með mér í jólagjafa-leiðangur og hún stóð sig eins og hetja, hélt á fataleppum fyrir móður sína sem fór offörum í outlet-mallinu að venju. Tókst okkur að klára að kaupa þriðjung gjafanna, sem telst nú nokkuð gott á þremur tímum. Í kvöld sat ég svo sveitt við og pakkaði inn áður en ég myndi gleyma hvað tilheyrði hverjum. Ég er nefnilega með vanvirkan heila, hann skrapp saman í þvotti.
Annars er ég komin í þann slæma ávana aftur að bíða í 2 tíma eftir að allir aðrir heimilismeðlimir eru komnir í rúmið áður en ég fylgi í kjölfarið. Ég segir “aftur” því að þetta gerist ætíð þegar við förum til Íslands og dagarnir eru hver öðrum erilsamari. Nú kalla ég þetta að eiga smá tíma út af fyrir mig í ró og næði þar sem ég er ekki að láta Bjarka ropa, bíða róleg í gegnum öskrin eftir kúki og prumpi (formúlan er ekkert að fara neitt sérstaklega vel í hann) eða gefa að drekka, eða skipta um bleiu, eða fylgjast með því sem Anna er að gera og segja og passa að hún kjassist ekki um of upp á litla bróður.
Gallinn er auðvitað sá að Bjarki sefur ekkert sérstaklega vel; lengstu lúrarnir eru í allra mesta lagi 3 tímar, yfirleit 2, og núna þegar hann er kominn með smá formúlu út í einn pela á dag þá er maginn í hönk og ekki tekið út með sældinni að vakna. Ég ætti því að hrynja í rúmið um leið og hann, eeeeen það er bara ekki að gerast…