Og þar með byrjar ballið…
Við mæðginin lifðum af fyrsta daginn eftir að feðraorlofi Finns lauk. Nóttin var reyndar ekki skemmtileg, held að Bjarki hafi vaknað á um klst fresti meiripart nætur enda í “kúka smá í einu”-ham. Mig minnir að um fimmleytið hafi ég séð of mikil aumur á honum og lagt í bleiuskipti of skömmu eftir drunur, sem varð til þess að honum tókst að pissa á sig tvisvar! Það var hins vegar ágætt að geta lúrað uppi í rúmi fram undir hádegi, þó svo að svefninn væri slitróttur.
Þegar niður var komið rak ég hins vegar augun í hádegismatar-töskuna hennar Önnu Sólrúnar, sem hafði gleymst í hamaganginum þegar þau feðgin fóru út úr húsi um morguninn. Þá voru góð ráð dýr, en úr varð að ég pakkaði Bjarka í kerruna sína og rölti yfir götuna og afhenti töskuna á síðustu stundu. Hann lúrði síðan rétt nógu lengi til að ég gæti gúffaði í mig eggjabrauð í hádegismat. 🙂
Um kvöldið fengum við Augusto og Söruh í heimsókn og það voru þvegnir þvottar. Við erum orðin fátæk af sjónvarpsefni eftir langa heimveru svo það var lítið annað að gera en að spjalla saman yfir fatabroti. Á morgun er hrekkjavaka á leikskólanum og planið er að mæta þangað og taka nokkrar myndir af Mjallhvítar-Önnu. Sjálf hrekkjarvakan er síðan á miðvikudaginn. Búhúhúúúúúú!!!