Hjá lungnalækni
[Saw a pulmonology doctor today. He wants to see Bjarki in a month, and if he’s gotten big and strong enough then, he might do a test to see if he’s ready to come off the oxygen.]
Fórum í dag til lungnalæknis og hann hlustaði á Bjarka í bak og fyrir með sérstakri tvöfaldri hlustunarpípu. Hann sagði að auka-súrefnið væri ætlað til að létta Bjarka lífið, þannig að hann gæti eytt orkunni í að þyngjast og vaxa en ekki erfiða við að halda nægilegu súrefni í blóðinu. Hann vildi skoða hann aftur eftir mánuði, og jafnvel prófa hann án súrefnis þá til að sjá hvernig hann stendur sig. Okkur skildist að “súrefnisprófið” sé þannig að hann verði tengdur við blóðsúrefnismæli yfir nótt og niðurstöðurnar vistaðar.
Ef í ljós kemur að súrefnismagnið í blóðinu helst tiltölulega stöðugt, þá á hann víst ekki að þurfa á súrefninu að halda lengur, en ef það sveiflast töluvert upp og niður (sem þýðir að hann þarf að hafa fyrir því að anda) þá þarf hann súrefnið áfram. Hann sagði líka að ef Bjarki veikist þá á það eftir að taka hann lengri tíma að jafna sig en önnur börn, og að hann gæti þurft á súrefninu að halda aftur. Venjan væri samt sú að bara fyrsti veturinn sé erfiður fyrir fyrirbura, en að ári liðnu væri þeir orðnir eins og “venjuleg” börn.