Frústeruð
[Bjarki’s still alive and growing. The docs were worried about his heart today, but the cardio-docs weren’t too concerned, so they’ll just keep watching him. The nurse today was one of those “by the book and as the docs say only” nurses, and we didn’t get along all that well. I’m getting tired of the NICU, can’t wait to take the boy home and away from wires, alarm bells and crazy strict feeding schedules.]
Var að koma úr fínasta saumaklúbb hjá Sólveigu. Alltaf gaman að hitta “stelpurnar” og spjalla um daginn og veginn. Það átti sérstaklega vel við í dag því að hjúkkan sem var með Bjarka Frey var þverari en fúll asni og neitaði að víkja í nokkru frá því hvernig læknarnir hafa uppáskrifað að hann eigi að fá matinn sinn. Þeir hafa verið að gefa honum matinn með því að sprauta í rörið sem liggur ofan í maga í 1 klst. Þegar hann drekkur úr pela hins vegar, þá klárar hann magnið á 10 mín. Sumar hjúkkurnar hafa látið þetta sprautudæmi um eyru fjúka (nota opna sprautu og þyngdaraflið), og enn aðrar hafa gefið magnið á skemmri tíma. Ekkert af þessu virðist hafa teljandi áhrif á vélindabakflæðið.
En þegar ég fór sem sagt rúmlega sex, þá hafði hann drukkið örlítið af brjóstinu en síðan lognast út af. Í staðinn fyrir að gefa honum síðan pela (má ekki vekja drenginn, hann þarf að sofa!) þá setti hjúkkan upp sprautudæmið nema hvað að þegar ég setti hann í rúmið sitt glaðvaknaði hann og ætlað að éta af sér hnefann af hungri. Ég bað hana um að hraða mjólkinni aðeins, en nei… hann skildi fá hana yfir 1 klst eins og er uppáskrifað. Ég ákvað að hraða mér út áður en ég missti stjórn á skapinu.
Annars er það helst í fréttum að hann hefur verið með eilítið hraðan hjartslátt eftir að hann hætti á hjartalyfinu, og þegar þeir tóku röntgenmynd af brjóstholinu í dag þá sýndist þeim sem hjartað væri óvenju stórt. Það var rætt við hjartalæknana sem vildu meina að það væri eðlilegt að hjartslátturinn væri hraður á meðan að líkaminn lagar sig að lyfjaleysinu og því verður bara haldið áfram að fylgjast með honum.
Í gær voru 10 viknar liðnar frá fæðingunni, og hann orðinn 36 vikna. Ég skal viðurkenna að ég er orðin nett þreytt á vökudeildinni, er alveg til í að losna við alla þessar víra og endalausar viðvörunarbjöllur. Ég er líka orðin þreytt á því að vera í stanslausu kappi við að pumpa og gefa brjóst á “réttum tíma” til að matartímarnir fari ekki úr skorðum, og að vera hent út í hálftíma klukkan þrjú eftir hádegi á meðan það eru vaktaskipti sem er akkúrat á einum matartímanum.
Í dag ræddi ég aðeins um hvenær hann myndi útskrifast og þótti yfir-hjúkkunni ólíklegt að það yrði innan tveggja vikna, en kannski fljótlega eftir það. Það fer auðvitað eftir Bjarka Frey og hvernig honum gengur að læra að anda og halda súrefnismagni í blóðinu o.s.frv. Eitthvað var verið að tala um að útskrifa hann kannski heim beint af vökudeildinni, án þess að hann fari niður á “mið-vökudeildina” eins og venjan er. Þau hafa víst áhyggjur af því að hann geri hjúkkurnar þar taugaveiklaðar því hann missir svo oft niður súrefnismettun á blóði, sem getur verið merki um sýkingu.
Þess fyrir utan er komin helgi og kannski spurning um að fara að undirbúa heimilið undir komu litla manns.