Lungun prófuð aftur
[When I showed up at noon at the hospital they had just taken Bjarki Freyr off the ventilator and put him on CPAP. They suspected that the ventilator hose was getting clogged and since they anyway had to remove it they decided to change over to CPAP and see how it goes. CPAP is all about maintaining constant low pressure on the lungs to keep them open, but he does the breathing. It is better on the lungs, but more uncomfortable and much more difficult than the ventilator.
As expected, Bjarki Freyr wasn’t happy with the treatment, but relaxed after being flipped on his stomach. He held my finger for a while which was very cosy. But when we visited after dinner he had forgotten to breathe several times and I would not be surprised if they put him back on the ventilator tonight or tomorrow. Hopefully he will manage to sleep properly. And yes, he is back on the UV treatment today and is apparently slow to digest his milk.
Today Anna Sólrún went to daycare, but came home without having slept there and was accordingly cranky. She fell asleep exhausted three minutes after dinner. Finnur started working again today and grandma Anna went for a walk around the neighborhood. I took the bus to the hospital and then went home again and took a nap after pumping. Not much energy to do much else, but tomorrow the goal is to go to the hospital and then get a haircut. We’ll see how that goes.]
Þegar ég mætti á spítalann um hádegisbilið var nýbúið að taka Bjarka Frey af öndunarvélinni og skipta yfir á neföndun. Þá grunaði víst að öndunarvélar-slangan væri orðin eitthvað stífluð, og þar sem að það átti hvort eð er að fjarlægja hana, þá var ákveðið að skella honum í neföndun til að sjá hvernig honum gengi. Neföndunin virkar þannig að það er blásið lofti inn um nefið til að halda lungunum opnum, en hann sér sjálfur um að anda. Hún fer betur með lungun, en er óþægilegri og miklu erfiðari en öndunarvélin.
Eins og við var að búast var Bjarki Freyr ekkert sérstaklega kátur með meðferðina, en slakaði aðeins á eftir að honum var snúið á magann. Hann hélt í puttann á mér lengi vel sem var voða kósí. Þegar við heimsóttum hann í kvöld þá var hann nokkrum sinnum búinn að gleyma að anda og það kæmi mér ekkert á óvart ef hann yrði settur aftur á öndunarvélina í nótt eða á morgun. Eitthvað gekk honum brösuglega að koma sér vel fyrir en vonandi nær hann að sofna almennilega. Og já, hann var settur aftur í gululjós núna í dag og honum gengur hægt að melta mjólkina sína.
Í dag fór Anna Sólrún annars á leikskólann, en kom heim lúr-laus og stúrin eftir því. Hún sofnaði á um þremur mínútum eftir kvöldmatinn enda greinilega örmagna. Finnur fór í vinnuna í fyrsta sinn eftir að ósköpin dundu yfir og Anna eldri fór í göngutúr um nágrennið. Ég tók strætó á spítalann og svo heim aftur og lagði mig eftir pumpun. Ekki mikil orka til að gera mikið annað, en á morgun er markmiðið sett á spítalaferð og klippingu. Sjáum hvað setur.