Sjötti dagur í rúmlegu
Dagur fimm kom og fór og nú er næsti dagur runninn upp. Vinirnir eru farnir að senda okkur kvöldmáltíðir og er það vel. Ég er ennþá í skjaldbökuham þegar ég hreyfi mig um, en í dag verður einhver breyting á rútínunni því við eigum tíma hjá sérfræðingi eftir rúma klst. Þetta mun vera kona sem sérhæfir sig í fyrirburafæðingum, fjölburum og öðru meðgönguveseni svo það verður fróðlegt að heyra hvað hún hefur að segja.
Við þurfum bara að leggja snemma af stað svo ég geti skjaldbakað mig niður stigann, út að bíl, inn í bíl, út úr bíl, inn í hús, o.s.frv. Það er annars ekki langt að fara, stofan er hérna á kampus. Verð að viðurkenna að ég er svoldið stressuð fyrir þennan hitting, veit ekki hvort það er möguleikinn á vondum fréttum eða minn venjulegi ótti við að “missa stjórnina” (t.d. að ég gleymi að spyrja einhverrar spurningar, að læknirinn hlusti ekki, eða heimti eitthvað á móti mínum óskum).
Í öðrum fréttum þá virðist Anna vera búin að sætta sig við þessa liggjandi móður. Kemur til mín til að láta greiða á sér hárið (en heldur sig til að byrja með úr gripfjarlægð og síðan fara fram langar samningaviðræður) og svo kemur hún með bækur til mín að lesa. Annars er ég greinilega frekar ónothæf og pabbi orðinn aðal-manneskjan. 🙂