Handleiðsla
Það má diskútera það óendanlega hvaða hlutverki doktors-leiðbeinendur skuli gegna. Það er hins vegar nokkuð ljóst að minn proffi hefur valið sér hlutverk, og það er að kenna nemendum sínum að skrifa greinar. Þannig eyddi ég núna rétt tæpum tveimur klst í símanum með proffanum mínum að fara yfir pappírinn minn. Á þessum tveimur klst komumst við yfir rétt rúmlega þrjár blaðsíður með tvöföldu línubili, sem þýðir að hinar tólf blaðsíðurnar eiga eftir að taka amk fjórar tveggja tíma tarnir í viðbót. Og þá eru myndirnar eftir! Jæks!
Hann hefur sérstakt dálæti á réttri kommusetningu, svo ekki sé minnst á rétta orðanotkun og ég er núna með skipanir um að fá lykil að skrifstofunni hans til að ná mér í eintak af enskri orðabók og málfræðibók mér til fróðleiks og yndisauka. Ég kann svo sem ágætlega við þetta, en þetta tekur helst til langan tíma. Á meðan er ég sjálf komin með “þarf að gera fyrir pappírinn” lista upp á 38 atriði og einhvern veginn á þetta allt að smella saman fyrir lok mánaðarins. [andvarp]
Hvað um það… Í dag er fyrsti dagurinn í nýja bekknum hjá Önnu Sólrúnu og það gekk víst bara vel að skilja hana eftir í morgun. Ég ætla að mæta til hennar eftir klst eða svo og sjá hvernig gengur. Fátt annað í fréttum en að við settum inn okkar fyrstu leigu-íbúðar-umsókn í gær. Ekki fullkomin íbúð, en hún ætti að duga. Hef ekkert heyrt í konunni samt, en veit að hún fékk einhver sjötíu símtöl um íbúðina fyrsta daginn svo samkeppnin er hörð.
Við uppgötvuðum svo í gær að til að sækja um leiguíbúðir hér þá þarf maður að borga leigusalanum fyrir að keyra “kredit-tékk”. Það er yfirleitt $30 á mann, en hún sleppti okkur með $25 á mann. Þetta þýðir væntanlega að fólk sækir ekki um íbúðir bara upp á jókið, þó svo að hún segði reyndar að hún rifi ávísanirnar frá þeim sem hún athugaði ekki. Er þetta svona á Íslandi líka?