Dagur 5: Rómantík og ristil-árás
[Dry day, sleepy day. Lesson learnt: Don’t take iron pills! Trying prune-juice.]
Í allra fyrsta lagi: Í dag eigum við Finnur þrettán ára “vera-saman” afmæli!! Það var víst fyrir þrettán árum að við leiddumst á rómantískri kvöldgöngu umhverfis tjörnina á meðan miðbærinn rokkaði. Að lokum enduðum við í Byggðarenda þar sem við horfðum á sólina rísa í gegnum stofugluggann og borðuðum ananas úr dós í morgunmat. Og já, Viggi kom upp til að setja spólu í tækið því að hann var að taka upp heimsmeistarakeppnina í fótbolta. Gaman það. 🙂
Við reyndar hittumst ekkert í dag, því að dagskráin var þéttpökkuð hjá mínum og nóg að gera heima fyrir. En Deirdre og Matt kíktu við í hádeginu og komu með blóm svo það var ágætt. Verst að í blómvendinum eru blóm sem eiga eftir að lykta verulega, svo ég verð eiginlega að biðja Finn að taka vöndinn heim á morgun. Enga fleiri blómvendi takk annars (ef einhver er að spekúlera), ég er ekki með neitt borðpláss til að geyma þá á.
Ókei, þar með er rómó parturinn af bloggi dagsins búinn, og hér kemur órómó-parturinn. Þeir sem vilja ekki lesa um ristla og það sem ferðast um ristla, þurfa bara að vita að dagurinn hefur verið lekalaus hingað til og ég búin að vera duglega að borða og sofa.
Hvað um það. Minn fyrsta dag á deildinni voru mér réttar töflur til að taka: fjölvítamín og járntöflur ásamt “kúkamýkingartöflu” (ég er ekki að grínast). Ég auðvitað bara sagði já og tók þann daginn tvær járntöflur áður en ég áttaði mig á að þetta væri ekkert sniðugt og neitaði þeim þar eftir. Enda kom í ljós þegar ég spurði að ég er ekkert járnlaus!
Í dag lenti ég svo í því að eitthvert ristilskrímsli (sem er ennþá í felum þegar þetta er skrifað) tók upp á því að þrýsta illilega á einhverja æð eða eitthvað á leiðinni niður. Ég sum sé fékk allt í einu svima, dúndrandi hjartslátt í hausnum, svitakast og átti erfitt með að anda og var fegin að það var hjúkka í herberginu (nýbúin að tala um svona mál við mig) sem gat rétt mér blautan kút fyrir ennið og sagt mér að halda áfram að anda!
Ég var heillengi að jafna mig (ristillinn er snigill líkamans), en núna er ég komin með sveskjusafa í hönd og soðið vatn að ráðleggingu herbergisfélagans, sem er atvinnumanneskja í meltingarmálum eftir langar frjósemismeðferðir (hormónasprautur eru víst stemmandi). Líðanin er ágæt, en ristillinn hefur ekki látið segjast og situr sem fastast á sínu gulli.
Héðan í frá er ég sko alveg pottþétt á því að taka ekki járnpillur þó svo að mér séu réttar þær, þær eru bara til vandræða. Sérstaklega þegar maður er ekki járnlaus til að byrja með!!