Dagur 4: Rólegt
Hér ligg ég enn. Átti rólegan dag eftir rólega nótt (fimm tíma samfleytt svefntörn!). Hjúkkurnar ákváðu að við tvær þyrftum fyrst og fremst svefn, og létu okkur í friði í alla nótt. Gleði dagsins var að losna við æðalegginn, nú er ég bara á sýklalyfjum í pilluformi.
Lá annars bara og reyndi að slaka á (morgunheimsókn læknanna er svoldið stressandi, þeir vilja vera alveg vissir um að þeir viti hvernig við viljum hafa hlutina sem þýðir að maður þarf að hugsa um ástæðuna fyrir því að maður sé hérna), lúrði aðeins og heklaði aðeins.
Kerri kom í heimsókn í hádeginu (Sarah og Cecile komu í gær) og það var ágætt að spjalla aðeins. Síðan fór ég í mína daglegu sturtu (læknar skrifa upp á hreint hár þegar þeir geta) og svaf eins og steinn í klst eftir það. Ég virðist samt ennþá vera í svefnskuld og hlakka til að sofa í kvöld. Dagurinn búinn að vera lekalaus hingað til, sem hjálpar upp á skapið.
Finnur fór víst með Önnu Sólrúnu í sund í dag og hann var að þvo þvott á meðan Anna lúrði þegar ég talaði við hann í dag. Veit ekki hvort þau komi í kvöld, klukkan alveg að verða átta og þeim er illa við krakkaheimsóknir eftir það.
Á morgun er útskriftardagur í Stanford, og það verður víst mikið um á kampus. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega sorgmædd að missa af athöfninni, þó svo að margir vinirnir séu að “ganga”. Búin að sjá þetta kannski aðeins of oft… Finnur ætlar víst með Önnu í útskriftar-grillveislu seinnipartinn á morgun svo það er nóg að gera hjá þeim!
Uppfærsla: Finnur og Anna Sólrún komu í heimsókn núna áðan og færðu mér ostaköku úr útskrifarveislu Randy nágranna okkar. Hann er pabbi Adu, góðvinkonu Önnu. Anna borðaði helminginn af kökunni á móti mér, held að það sé eitthvað átskeið í gangi! Annars var dagurinn víst ágætur hjá þeim, og afskaplega gaman að sjá þau. 🙂
Svo má ekki gleyma að óska Magneu hans Arnars hjartanlega til hamingju með útskriftina úr hjúkrunarfræðinni!! Mamma setti upp myndir hér.